Aðstoð frá hinu opinbera á Grænlandi

People in Nuuk
Ljósmyndari
Mads Schmidt Rasmussen / norden.org
Hér er að finna upplýsingar um hvernig hægt er að sækja um aðstoð frá hinu opinbera á Grænlandi.

Ef þú dvelst löglega á Grænlandi og hefur engar aðrar tekjur áttu rétt á að sækja um aðstoð hins opinbera á sömu kjörum og almennir borgarar í landinu, en þarft að sjálfsögðu að uppfylla sömu skilyrði og þeir til að eiga rétt á aðstoðinni.

Hvaða greiðslur eru í boði?

Almenna reglan er sú að allir fullorðnir borgarar landsins skuli sjá sjálfum sér og fjölskyldum sínum farborða, en í sumum tilfellum er það ekki gerlegt. Það getur stafað af félagslegum kringumstæðum, svo sem dauðsfalli, barnsfæðingu, skilnaði, atvinnuleysi eða skertri getu til atvinnu vegna veikinda eða slyss.

Á Grænlandi býður opinbera kerfið tvenns konar fjárhagsaðstoð:

  • Bráðaaðstoð hins opinbera tekur til grunnþarfa á borð við mat og húsaleigu. Hana er hægt að veita ef aðstæður fólks versna skyndilega svo að aðstoðar gerist þörf.
  • Aðstoð hins opinbera til fastra útgjalda og framfærslu er langvarandi stuðningur vegna útgjalda á borð við kostnað af húshitun, rafmagni og vatni. Að auki geturðu fengið aðstoð til framfærslu þinnar og fjölskyldu þinnar.

Sérstakar reglur gilda um fólk sem stundar fiskveiðar og aðrar veiðar í atvinnuskyni. Tekjur af fiskveiðum og öðrum veiðum geta verið stopular vegna veðurskilyrða eða á tímabilum þegar verslun er stöðvuð (da. indhandlingsstop). Því er tekið sérstakt tillit til þeirra fjölskyldna sem sjá sér farborða með fiskveiðum eða öðrum veiðum.

Einnig er hægt að sækja um eingreiðslur frá hinu opinbera vegna útgjalda sem voru ófyrirséð, eða sem munu stuðla að bættum kringumstæðum umsækjanda í framtíðinni. Slíkur stuðningur er til dæmis veittur vegna búferlaflutninga, greftrunarkostnaðar eða ferðakostnaðar vegna veikinda eða andláts náins aðstandanda.

Hvaða skilyrði þarf að uppfylla?

Til að fá aðstoð frá hinu opinbera þarftu að hafa fasta búsetu á Grænlandi og vera skráð/ur í þjóðskrá Grænlands, auk þess að uppfylla eitt af eftirfarandi skilyrðum:

  • vera danskur ríkisborgari
  • vera gift/ur dönskum ríkisborgara, eða hafa síðast verið gift/ur dönskum ríkisborgara
  • falla undir milliríkjasamninga sem tryggja þér rétt til framfærslu hins opinbera á Grænlandi, s.s. Norðurlandasamninginn um almannatryggingar.

Að auki þarftu að geta framvísað gögnum sem varpa ljósi á þær félagslegu kringumstæður er valda því að þú getir ekki séð þér og fjölskyldu þinni farborða.

Hversu háar eru greiðslurnar?

Upphæð fjárhagsaðstoðar frá hinu opinbera veltur á kringumstæðum þínum og þeim föstu útgjöldum þínum sem hið opinbera samþykkir, en almenna reglan er sú að þú getir ekki fengið hærri upphæð en sem nemur 65 prósentum af lágmarkslaunum ófaglærðs launþega skv. samningum stéttarfélagsins SIK.

Hvernig sækir þú um aðstoð frá hinu opinbera?

Umsóknarferlið er mismunandi eftir búsetusveitarfélagi, en yfirleitt þarf að panta tíma hjá ráðgjafa á skrifstofu sveitarfélagsins. Ráðgjafinn hjálpar þér svo með framhaldið. Í flestum tilfellum muntu þurfa að:

  • fylla út umsóknareyðublað
  • gera grein fyrir fyrri tekjum, til dæmis með því að sýna launaseðla
  • gera grein fyrir þeim útgjöldum sem þú getur ekki staðið straum af
  • gera grein fyrir þeim félagslegu kringumstæðum þínum sem gera að verkum að þú þurfir að sækja um

Áttu rétt á aðstoð frá hinu opinbera strax að loknum flutningum til Grænlands?

Almennt er ekki gerð krafa um að þú hafir búið á Grænlandi í tiltekinn tíma áður en þú sækir um aðstoð frá hinu opinbera. Þú þarft þó að geta gert grein fyrir þeim félagslegu kringumstæðum sem koma í veg fyrir að þú getir séð þér farborða.

Geturðu þegið aðstoð frá hinu opinbera á Grænlandi þótt þú búir í öðru landi?

Aðstoð hins opinbera á Grænlandi er aðeins ætluð þeim sem dvelja á Grænlandi og eru í þjóðskrá þar. Þú getur því ekki tekið fjárhagsaðstoðina með þér til annars lands.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna