Tannlæknaþjónusta á Grænlandi
Öll heilbrigðisþjónusta á Grænlandi er opinber og þar með án endurgjalds fyrir fólk með fasta búsetu í landinu. Það á einnig við um tannlækningar. Dveljir þú tímabundið á Grænlandi áttu aðeins rétt á nauðsynlegum bráðatannlækningum.
Tannlæknastofur
Tannlæknaþjónusta hins opinbera heldur úti tannlæknastofum í bæjum með fleiri en 500 íbúa. Tannlæknastofurnar sinna tannlækningum fyrir íbúa í viðkomandi bæ og á nærliggjandi svæðum. Tannlæknastofurnar sinna almennu tanneftirliti, fyrirbyggjandi meðferðum, holufyllingum, rótfyllingum, tannréttingum og meðferð vegna gervitanna.
Allir byggðakjarnar, að þeim allra minnstu undanskildum, fá árlega heimsókn frá þeirri tannlæknastofu sem þeir heyra undir. Tannlæknirinn auglýsir þá fyrirfram hvernig tímabókunum verður háttað svo að íbúar geti pantað tíma.
Í Nuuk eru einnig einkareknar tannlæknastofur.
Svona kemstu til tannlæknis
Til að fá tíma hjá tannlækni skal bóka tíma símleiðis. Misjafnt er eftir stofum hvenær dagsins símatími er. Þá geta íbúarnir hringt og fengið tíma, vanalega samdægurs. Biðtími í símanum getur verið langur og ekki er víst að tími fáist samdægurs, þar sem dagurinn kann að vera uppbókaður þegar maður nær sambandi. Þá er hægt að reyna aftur daginn eftir. Sumar stofur eru með opna móttöku fyrir neyðartilvik.
Barnatannlæknar
Tannlæknastofurnar standa oft fyrir heimsóknum í stofnanir og skóla til að leiðbeina um tannhirðu og tannheilsu. Að auki eru börn og ungmenni reglulega kölluð í tanneftirlit við eftirfarandi aldur: 8 mán., 14 mán., 26 mán., 3ja ára, 4,5 ára, 5-6 ára, 9 ára, 11-12 ára og 15 ára.
Þegar flutt er með börn til Grænlands á að gera tannlæknastofu á staðnum viðvart svo að hægt sé að setja barnið á skrá til reglulegs eftirlits.
Að auki fer árlega fram Stóri tannburstunardagurinn, en þá er efnt til viðburða um allt landið með áherslu á góða tannheilsu.
Réttur til heilbrigðisþjónustu
Til að eiga rétt á ókeypis tannlæknaþjónustu á Grænlandi þarft þú að:
- Vera skráð/ur í þjóðskrá á Grænlandi
- Hafa danska eða grænlenska kennitölu
Hafir þú tímabundna dvöl á Grænlandi áttu rétt á nauðsynlegum bráðatannlækningum.
Fyrir norræna borgara utan ríkjasambandsins gilda sömu reglur og varðandi aðra heilbrigðisþjónustu á Grænlandi.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.