Húsnæðisstyrkir í Finnlandi

Asumisen tuet Suomessa
Hér segir frá ýmiss konar húsnæðisstyrkjum sem veittir eru í Finnlandi. Ef þú flytur til Finnlands getur þú yfirleitt fengið bætur frá almannatryggingastofnuninni Kela allt frá flutningsdegi.

Finnska almannatryggingastofnunin (Kansaneläkelaitos eða Kela) veitir ýmsa húsnæðisstyrki. Þessir styrkir eru almennur húsnæðisstyrkur, húsnæðisstyrkur lífeyrisþega, húsnæðisstyrkur hermannahjálparinnar og húsnæðisuppbót með námsstyrk.

Almennur húsnæðisstyrkur og húsnæðisstyrkur lífeyrisþega eru aðeins veittir vegna húsnæðis í Finnlandi. Húsnæðisstyrk hermannahjálparinnar og húsnæðisuppbót með námsstyrk er hægt að veita vegna húsnæðis í öðrum löndum.

Alla jafna er aðeins hægt að þiggja eins konar húsnæðisstyrk í einu. Áður en þú sækir um húsnæðisstyrk frá Kela skaltu kanna hvaða styrkur hæfir þér og fjölskyldu þinni best.

Almennur húsnæðisstyrkur

Almennum húsnæðisstyrk er ætlað að draga úr húsnæðisútgjöldum tekjulágra heimila. Heimili er hér skilgreint sem sambýli einstaklinga í sama húsnæði og húsnæðisstyrkurinn er veittur heimilinu í heild en ekki einstöku heimilisfólki.

Upphæð styrksins ræðst af

  • húsnæðiskostnaði
  • fjölda fullorðinna og barna á heimilinu 
  • samanlögðum tekjum heimilisfólks
  • staðsetningu húsnæðis.

Til að fá almennan húsnæðisstyrk þarf að hafa fasta búsetu í Finnlandi. Búseta í Finnlandi er ákvörðuð samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar á grundvelli búsetu yfir landamæri. Styrkurinn er aðeins greiddur vegna kostnaðar við húsnæði í Finnlandi. 

Nánari upplýsingar um almennan húsnæðisstyrk eru á vefsvæði Kela .

Húsnæðisstyrkur lífeyrisþega

Húsnæðisstyrk lífeyrisþega er ætlað að draga úr húsnæðiskostnaði tekjulágra lífeyrisþega. Þú átt rétt á húsnæðisstyrk lífeyrisþega ef þú hefur fasta búsetu í Finnlandi og þiggur lífeyri eða bætur sem veita rétt á húsnæðisstyrk lífeyrisþega. Slíkur húsnæðisstyrkur er þó ekki í boði fyrir einstaklinga sem þiggja almennan húsnæðisstyrk. Einstaklingur telst hafa búsetu í Finnlandi ef hann uppfyllir skilyrði gildandi laga um almannatryggingar á grundvelli búsetu yfir landamæri. 

Húsnæðisstyrkur lífeyrisþega er ætlaður eftirfarandi hópum:

  • einstaklingum sem búa einir og eiga rétt á húsnæðisstyrk lífeyrisþega
  • hjónum eða sambúðarfólki þar sem annað eða bæði eiga rétt á húsnæðisstyrk lífeyrisþega 
  • heimilum þar sem allt heimilisfólk á rétt á húsnæðisstyrk lífeyrisþega.

Húsnæðisstyrkur lífeyrisþega ákvarðast meðal annars af útgjöldum vegna húsnæðis, hjúskaparstöðu (er lífeyrisþeginn giftur, í sambúð eða einhleypur), tekjum og eignum. Styrkurinn er aðeins greiddur vegna kostnaðar við húsnæði í Finnlandi. 

Nánari upplýsingar um húsnæðisstyrk lífeyrisþega eru á vefsvæði Kela.

Húsnæðisstyrkur hermannahjálparinnar

Húsnæðisstyrkur hermannahjálparinnar er ætlaður þeim sem gegna herskyldu. Með fólki sem gegnir herskyldu er hér átt við þau sem gegna herþjónustu eða borgaralegri þjónustu í stað herþjónustu.  Nánari upplýsingar um húsnæðisstyrk hermannahjálparinnar eru á vefsvæði Kela.

Húsnæðisuppbót með námsstyrk

Húsnæðisuppbót með námsstyrk er aðeins ætluð

  • finnskum háskólanemum erlendis sem búa í leiguhúsnæði,
  • nemum við lýðháskóla, íþróttastofnanir eða menntastofnanir á landsvæði Sama sem þurfa að greiða skólagjöld og búa á heimavist viðkomandi menntastofnunar, eða
  • námsmönnum á Álandseyjum sem búa í leiguhúsnæði.

Aðrir námsmenn í Finnlandi geta átt rétt á almennum húsnæðisstyrk með sömu skilyrðum og aðrir umsækjendur. Nánari upplýsingar um húsnæðisuppbót með námsstyrk og almennan húsnæðisstyrk eru á vefsvæði Kela.

Nánari upplýsingar

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna