Launalaust orlof í Noregi

Permittering fra jobb i Norge
Hér geturðu lesið um reglurnar um launalaust orlof og hvernig þú sækir um atvinnuleysisbætur í launalausu orlofi.

Hvað er launalaust orlof?

Launalaust orlof er tímabundin aðgerð þar sem starfsmanni er gert að taka sér leyfi frá störfum vegna þess að atvinnurekandinn eða fyrirtækið getur ekki boðið upp á verkefni. Launalaust orlof er ekki það sama og uppsögn. Launalaust orlof þýðir að þú þarft ekki að mæta í vinnuna eða vinna og vinnustaðnum er ekki skylt að greiða þér laun. Ráðningarsamband starfsmanns og atvinnurekanda er engu að síður óbreytt og skilyrði er að vinnustöðvunin sé tímabundin. Ef orlofið er ekki tímabundið ber að segja starfsmanninum upp störfum.

Launalaust orlof getur átt sér gildar ástæður sem varða vinnustaðinn en ekki starfsmanninn. Gildar ástæður geta verið sparnaðarkrafa, skortur á eftirspurn og hagnýt atriði sem hamla starfinu.

Ólíkar tegundir orlofs án launa

Ef um fullt launalaust orlof er að ræða er starfsmaðurinn með öllu undanskilinn starfsskyldum. Ef um launalaust orlof að hluta til er að ræða má starfsmaður vera í hlutastarfi en að öðru leyti í launalausu orlofi. Greinarmunur er gerður á launalausu orlofi;

  • uppsögn að hluta til eða fullu;
  • styttingu vinnutíma þar sem starfsmaður á rétt á launuðum uppsagnarfresti;
  • orlofi með eða án launa sem starfsmaður fær að eigin ósk

Tilkynning um launalaust orlof

Atvinnurekanda ber að tilkynna skriflega um launalaust orlof eigi síðar en 14 dögum áður en launalaust orlof tekur gildi. Fram að orlofi ber starfsmanninum að vinna samkvæmt venju og fá greidd laun fyrir. Launalaust orlof getur staðið yfir í óákveðinn tíma í allt að 52 vikur. Lengd orlofs án launa skal tilgreind í tilkynningunni sem starfsmaður fær um launalaust orlof. Þegar launalausa orlofinu lýkur er starfsmanni skylt að mæta til vinnu á ný. Ef launalaust orlof stendur yfir í óákveðinn tíma er starfsmanni skylt að mæta til vinnu tveimur dögum eftir að atvinnurekandi hefur tilkynnt um það.

Atvinnuleysisbætur í launalausu leyfi

Þú þarft að uppfylla almenn skilyrði um atvinnuleysisbætur til að eiga rétt á bótum í launalausu orlofi. Auk þess þurfa ástæður orlofsins að vera verkefnaskortur eða önnur atriði sem vinnustaðurinn ræður ekki við.

NAV annast greiðslur atvinnuleysisbóta í Noregi. Ef þú ert í launalausu orlofi þarftu að afhenda NAV tilhlýðileg gögn þar að lútandi.

Launafólk á landamærasvæðum

Launafólk á landamærasvæðum sem er í launalausu orlofi er undanþegið kröfunni um að búa eða dveljast í Noregi til að fá atvinnuleysisbætur.

Hver veitir svör við spurningum um launalaust orlof?

Fáðu upplýsingar um reglur um launalaust orlof hjá norska vinnueftirlitinu, Arbeidstilsynet Fáðu upplýsingar um atvinnuleysisbætur í launalausu leyfi hjá NAV

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna