Námsstyrkir í Danmörku (SU)

Dansk uddannelsesstøtte (SU)
Hér er að finna upplýsingar um danska menntastjóðinn, Statens Uddannelsesstøtte, sem oftast er kallaður SU. Lesa má um tækifæri á að fá námsstyrk til náms í öðrum norrænum löndum og um tækifæri norrænna námsmanna til að fá danskan námsstyrk.

Danskir námsmenn fá fjárhagsaðstoð (SU) meðan þeir stunda nám.

Hluti aðstoðarinnar er styrkur en einnig er hægt að fá lán til viðbótar ef óskað er. SU-styrkinn þarf ekki að endurgreiða til ríkisins, en lánið þarf að greiða að námi loknu.

  Skilyrði fyrir veitingu fjárhagsaðstoðar

  Uppfylla verður ákveðin skilyrði til að hafa rétt til fjárhagsaðstoðar (SU):

  • Námsmaðurinn verður að vera á ákveðnum aldri.
  • Námið verður að vera viðurkennt sem styrkhæft.
  • Námsmaðurinn verður að vera danskur ríkisborgari (upplýsingar um undantekningar eru í kaflanum „Námsaðstoð til erlendra ríkisborgara“ hér fyrir neðan).
  • Námsmaðurinn þarf að vera virkur í námi.

  Skilyrðin eru mismunandi eftir því hvort um er að ræða framhaldsskólanám, nám á háskólastigi eða einkanám. Nálgast má nánari upplýsingar á su.dk.

  Vinna með námi

  Mörg kjósa að vinna með námi. Mikilvægt er að hafa í huga að takmörk eru fyrir því hversu mikilla tekna má afla samhliða fjárhagsaðstoðinni. Ef tekjurnar fara yfir tekjumörkin þarf að endurgreiða hluta fjárhagsaðstoðarinnar.

  Nánari upplýsingar um tekjumörk vegna fjárhagsaðstoðar til námsmanna er að finna á su.dk.

  Fjárhagsaðstoð vegna náms í öðru norrænu landi

  Námsmenn sem eiga rétt á fjárhagsaðstoð í Danmörku en hyggjast stunda nám í öðru norrænu landi geta að jafnaði haldið fjárhagsaðstoðinni.

  Í fyrsta lagi þarf að uppfylla almenn skilyrði vegna fjárhagsaðstoðar. Í öðru lagi þarf viðkomandi að hafa búið í Danmörku í að minnsta kosti tvö ár samfleytt á undanförnum tíu árum (þetta á þó ekki við um námsmenn í tilteknu framhaldsskólanámi í Suður-Slésvík).

  Í þriðja lagi þarf erlenda námið að vera viðurkennt sem styrkhæft. Að jafnaði er skilyrði að námið veiti almenn starfsréttindi í Danmörku og að námið og menntastofnunin séu viðurkennd af yfirvöldum í námslandinu.

  Nánari upplýsingar um reglurnar og hvernig sótt er um fjárhagsaðstoð danska ríkisins til námsmanna til náms utan Danmerkur má nálgast á su.dk.

  Athuga þarf hvort viðkomandi nám er á lista (svonefndum „fasttrack“-lista) yfir nám sem fyrirfram er viðurkennt sem styrkhæft. Ef námið er ekki skráð þarf þarf að sækja um að það verði sett á listann um leið og sótt er um að fá fjárhagsaðstoð til náms erlendis.

  Fjárhagsaðstoð til erlendra ríkisborgara

  Ríkisborgarar í öðrum norrænum löndum eiga að jafnaði að sækja um námsstyrki frá heimalandi sínu. Nánari upplýsingar má nálgast hér:

   Dönsk fjárhagsaðstoð vegna náms til erlendra ríkisborgara

   Erlendir ríkisborgarar geta átt rétt á fjárhagsaðstoð fyrir námsmenn frá danska ríkinu (SU) að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

   Tvær mismunandi reglugerðir geta veitt erlendum ríkisborgurum sömu stöðu og dönskum: Danskar reglur eða ESB-reglur:

   Jöfn réttindi samkvæmt dönskum reglum

   Erlendir námsmenn geta fengið sömu stöðu og danskir samkvæmt ákvæðum danskrar reglugerðar,

   ef námsmaðurinn flutti til Danmerkur með foreldrum sínum fyrir tvítugsafmælið. Það er skilyrði að fjölskyldan sé áfram búsett í Danmörku og að námsmaðurinn og foreldrarnir hafi fasta búsetu í Danmörku,

   ef námsmaðurinn hefur búið í Danmörku í að minnsta kosti tvö ár samfleytt áður en sótt er um fjárhagsaðstoð og um leið verið giftur eða í staðfestri sambúð með dönskum ríkisborgara í að minnsta kosti tvö ár. Það er skilyrði að námsmaðurinn sé áfram giftur eða í staðfestri sambúð þegar sótt er um,

   ef námsmaðurinn hefur búið í að minnsta kosti tvö ár samfleytt í Danmörku og unnið að minnsta kosti þrjátíu tíma á viku fram að því að námið sem sótt er um fjárhagsaðstoð til hefst,

   ef námsmaðurinn hefur búið í Danmörku í fimm ár samfleytt á tímabilinu fram að því að sótt er um, að því tilskildu að hann hafi ekki flutt til Danmerkur til að stunda nám,

   ef námsmaðurinn er þýskur ríkisborgari en tilheyrir danska minnihlutanum í Suður-Slésvík,

   ef námsmaðurinn fellur undir ákvæði annarrar (flóttamenn) eða þriðju (sameining fjölskyldna útlendinga) málsgreinar 2. greinar útlendingalöggjafarinnar (integrationsloven).

   Jöfn staða í samræmi við ESB-reglugerð

   Erlendir námsmenn geta fengið sömu stöðu og danskir samkvæmt ákvæðum ESB-reglugerðar

   • ef námsmaðurinn er ríkisborgari í ESB- eða EES-landi og launþegi eða sjálfstæður atvinnurekandi í Danmörku,
   • ef námsmaðurinn er barn ríkisborgara í ESB- eða EES-landi,
   • ef námsmaðurinn er giftur ríkisborgara í ESB- eða EES-landi,
   • ef námsmaðurinn er foreldri ríkisborgara í ESB- eða EES-landi,
   • ef námsmaðurinn er ríkisborgari í ESB- eða EES-landi eða í fjölskyldu með ríkisborgara ESB- eða EES-lands og hefur verið búsettur í Danmörku í að minnsta kosti fimm ár samfleytt. Ef námsmaðurinn hefur verið búsettur utan Danmerkur í samfleytt tvö ár eða meira þarf hann að búa í Danmörku í fimm ár samfleytt til að öðlast rétt til fjárhagsaðstoðar.
   Spurning til Info Norden

   Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

   ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

   Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
   Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna