Réttur til heilbrigðisþjónustu í Svíþjóð

Ret til sundhedsydelser i Sverige
Hér má lesa um reglur um sjúkratryggingar í Svíþjóð og hvaða heilbrigðisþjónustu þú átt rétt á í Svíþjóð við tímabundna dvöl í landinu. Einnig eru gefnar upplýsingar um hvert skal leita í veikindum og rétt til fyrirhugaðrar læknismeðferðar í Svíþjóð ef þú býrð í öðru norrænu landi.

Sveitarfélög og svæðisstjórnir hafa umsjón með heilbrigðisþjónustunni í Svíþjóð. Þú átt rétt á heilbrigðisþjónustu þegar þú býrð í Svíþjóð. Í Svíþjóð greiðir þú yfirleitt komugjald þegar þú nýtir þér heilbrigðisþjónustu.

Almannatryggingar sjá um niðurgreiðslu tannlækningakostnaðar. Ef þú hefur sérstaka þörf fyrir tannlækningar áttu einnig rétt á tannlækningum hjá þinni landshlutastjórn.

Sjúkratryggingar í Svíþjóð

Ef þý býrð í Svíþjóð ert þú sjúkratryggð/ur og í mörgum tilfellum einnig ef þú býrð í öðru norrænu landi og starfar í Svíþjóð.

Ef þú hefur tilkynnt flutning og ert með lögheimili í Svíþjóð verður þú einnig almannatryggð/ur í Svíþjóð og átt rétt á heilbrigðis- og tannlæknaþjónustu eins og aðrir íbúar Svíþjóðar. Einungis er hægt að eiga aðild að almannatryggingum í einu landi í senn. Almannatryggingar veita fjárhagslega aðstoð fjölskyldum og börnum, einstaklingum með fötlun og einnig þeim sem veikjast, verða fyrir vinnuslysum eða öldruðum.

Ef þú átt aðild að almannatryggingum í Svíþjóð áttu rétt á að fá evrópska sjúkratryggingakortið í Svíþjóð. Kortið veitir þér rétt til heilsugæslu og tannlækninga þegar þú dvelst í öðru ESB/EES-landi eða Sviss.

Hvað kostar heilbrigðisþjónusta í Svíþjóð og er hægt að fá niðurgreiðslu?

Í Svíþjóð ákveður hver landshlutastjórn hvaða gjöld þér er gert að greiða fyrir læknisrannsóknir og aðra heilbrigðisþjónustu. Upphæð komugjalda fer eftir svæðinu þar sem þú býrð. Niðurgreiðslur setja þak á greiðslur einstaklinga á ári.

Ef þú ert almannatryggð/ur í Svíþjóð áttu rétt á tannlækningum þér að kostnaðarlausu upp að 23 ára aldri. Þegar þú verður 24 ára áttu rétt á niðurgreiðslum frá ríkinu á tannlækningum. Niðurgreiðslur á tannlækningum fara eftir aldri þínum og kostnaði meðferðarinnar. Ef þú átt við veikindi að stríða eða fötlun geturðu fengið hærri aðstoð en ella.

Er ég sjúkratryggð/ur ef ég á heima í Svíþjóð en vinn í öðru landi?

Ef þú býrð í Svíþjóð en stundar vinnu í öðru norrænu landi áttu yfirleitt aðild að almannatryggingum í starfslandinu.

Ef þú veikist áttu rétt á læknishjálp og tannlækningum í starfslandinu en einnig aðgang að læknishjálp og tannlækningum í Svíþjóð.

Þú sækir um með eyðublaðinu „Intyg om rätt till vårdförmåner i Sverige“ hjá Försäkringskassan.

Er ég sjúkratryggð/ur ef ég dvel tímabundið í Svíþjóð?

Ef þý býrð í öðru norrænu ríki og ferðast til Svíþjóðar til að dvelja þar tímabundið og skráir þig ekki í Svíþjóð áttu rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og bráðri tannlæknaþjónustu. Með nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu er átt við þjónustu sem ekki getur beðið þar til þú ferð aftur heim. Þú átt rétt á þessari þjónustu með sömu kjörum og fólk sem býr í Svíþjóð.

Þú þarft að framvísa gildum persónuskilríkjum, vegabréfi eða ökuskírteini. Auk þess þarftu að gefa upp heimilisfang þitt í heimalandi þínu.

Get ég fengið fyrirhugaða læknismeðferð í útlöndum?

Þú getur ráðgert læknismeðferð í öðru norrænu landi. Það getur verið tími hjá sérfræðilækni, aðgerð eða meðferð við tilteknum sjúkdómi.

Ef þú býrð í Svíþjóð og ráðgerðir meðferð í útlöndum geturðu sótt um fyrirfram leyfi eða staðfestingu hjá Försäkringskassan í Svíþjóð. Þú getur einnig greitt fyrir meðferðina erlendis og sótt um endurgreiðslu þegar heim er komið.

Get ég fengið fyrirhugaða læknismeðferð í Svíþjóð?

Ef þú býrð annars staðar á Norðurlöndum og sækir um ráðgerða meðferð í Svíþjóð þarftu annað hvort að vera með fyrirfram leyfi frá búsetulandinu áður en þú pantar meðferð í Svíþjóð. Eða hafa samband við yfirvöld í búsetulandinu til þess að kanna hvaða reglur gilda um endurgreiðslur á útlögðum kostnaði fyrir meðferð sem þú ráðgerir í Svíþjóð.

Get ég nýtt mér heilbrigðisþjónustu í Svíþjóð ef ég dvel tímabundið í öðru landi?

Ef þú stundar nám í öðru norrænu landi skemur en í eitt ár áttu sama rétt á heilsugæslu og tannlækningum í Svíþjóð og þegar þú bjóst í Svíþjóð

Ef þú stundar nám í öðru norrænu landi lengur en í eitt ár geturðu átt sama rétt á heilsugæslu og tannlæknaþjónustu í Svíþjóð og þegar þú bjóst í Svíþjóð en til þess þarftu að byrja á því að sækja um eyðublaðið „Intyg om rätt till vård i Sverige“ hjá Försäkringskassan.

Þú átt einnig rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu í námslandinu. Ef þú stundar nám í öðru norrænu landi er nóg að þú sýnir skilríki og gefir upp heimilisfangið þitt til að fá nauðsynlega þjónustu.

Ef þú óskar eftir heilbrigðisþjónustu sem getur beðið þar til þú snýrð aftur heim þarftu að greiða fyrir hana úr eigin vasa. Þú getur sótt um undanþágu hjá Försäkringskassan. Í sumum tilvikum geturðu sótt um fyrirfram um leyfi eða staðfestingu á ráðgerðri meðferð erlendis.

Á ég rétt á heilbrigðisþjónustu ef ég bý í Svíþjóð en starfa í mörgum löndum?

Ef þú býrð í Svíþjóð en stundar vinnu í að minnsta kosti tveimur Norðurlandanna ber þér að tilkynna það til Försäkringskassan. Försäkringskassan kannar þá hvort þú uppfyllir skilyrði til að vera áfram almannatryggð/ur í Svíþjóð.

Ef þú ert útsendur starfsmaður, hefur fengið undanþágu eða starfar í tveimur eða fleiri löndum samtímis þarftu að taka með þér eyðublaðið A1 (til Danmerkur og Finnlands) eða E 101 (til Íslands og Noregs). Eyðublöðin fást hjá Försäkringskassan. Þar kemur fram í hvaða landi þú ert almannatryggð/ur.

Get ég fengið endurgreiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu sem ég hef greitt fyrir erlendis?

Niðurgreiðslur á tannlækningum í öðru norrænu landi eru undir því komnar að

  • þú sért almannatryggð/ur vegna heilbrigðisþjónustu í Svíþjóð;
  • sú meðferð sem þú ráðgerir hefði verið greidd af hinu opinbera eða þú hefðir átt rétt til niðurgreiðslu frá ríkinu á tannlækningum ef þú hefðir fengið meðferðina í Svíþjóð;
  • meðferðin sé í höndum heilbrigðisstarfsfólks með fagleg starfsréttindi.

Þú getur aldrei fengið hærri endurgreiðslu en sem nemur þeirri upphæð sem samsvarandi meðferð hefði kostað í Svíþjóð eða sem þú greiddir úr eigin vasa. Það þýðir að ef tannlækningarnar voru dýrari í því landi sem þær voru veittar greiðir þú mismuninn úr eigin vasa.

Endurgreiðslur vegna heilbrigðisþjónustu í öðru norrænu landi eru undir því komnar að

  • þú sért almannatryggð/ur vegna heilbrigðisþjónustu í Svíþjóð;
  • sú meðferð sem þú ráðgerir hefði verið greidd af hinu opinbera ef þú hefðir fengið meðferðina í Svíþjóð;
  • meðferðin sé í höndum heilbrigðisstarfsfólks með fagleg starfsréttindi;
  • þú hafir greitt meira en komugjaldið í landinu sem þú fékkst meðferðina.

Þú getur aldrei fengið hærri endurgreiðslu en sem nemur þeirri upphæð sem samsvarandi meðferð hefði kostað í Svíþjóð eða sem þú greiddir úr eigin vasa. Það þýðir að ef meðferðin var dýrari í því landi sem hún var veitt en í Svíþjóð greiðir þú mismuninn úr eigin vasa.

Hvert er hægt að snúa sér með spurningar?

Nánari upplýsingar er að vinna á vefsíðu Försäkringskassan. Þú getur líka hringt í þjónustuver Försäkringskassan: +46 (0)771–524 524.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna