Tungumálanámskeið fyrir innflytjendur í Danmörku
Flestir útlendingar eiga rétt á dönskukennslu þegar þeir flytja til Danmerkur eða hefja þar störf. Sumir danskir ríkisborgarar eiga einnig rétt á slíkri kennslu. Greinarmunur er gerður á ólíkum flokkum nemenda. Norrænir ríkisborgarar eru svokallaðir S-nemendur. Það þýðir að kennslan er ókeypis en að greiða þurfi tryggingargjald vegna hennar.
Hverjum býðst dönskukennsla?
Dönskukennsla býðst útlendingum sem eru nýkomnir til Danmerkur og hafa náð 18 ára aldri og:
- eru með dvalarleyfi eða hafa fasta, löglega búsetu í Danmörku og eru skráðir þar í þjóðskrá, eða
- hafa fasta búsetu samkvæmt reglum ESB um niðurfellingu á takmörkunum á komu og dvöl í tengslum við frjálsa för vinnuafls, rétt til staðfestu og veitingu þjónustu o.fl. og eiga lögheimili í sveitarfélagi.
Lögin eiga einnig við um útlendinga sem eru ríkisborgarar Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, að svo miklu leyti sem þeir þurfa á dönskukennslu að halda.
Dönskukennsla býðst Færeyingum, Grænlendingum og ákveðnum dönskum ríkisborgurum.
Eftirfarandi danskir ríkisborgarar eiga sama rétt og útlendingar:
- Grænlendingar og Færeyingar sem búsettir eru í Danmörku, hafa náð 18 ára aldri og hafa af sérstökum ástæðum ekki nægileg tök á dönsku til þess að geta tekið þátt í dönsku samfélagi.
- Danskir ríkisborgarar sem hafa náð 18 ára aldri og hafa vegna langvarandi dvalar erlendis ekki nægileg tök á dönsku til þess að geta tekið þátt í dönsku samfélagi.
Vinnuferðalangar innan ESB eiga rétt á dönskukennslu. Vinnuferðalangar innan ESB eru launþegar sem vinna í Danmörku eða einstaklingar sem eru með sjálfstæðan rekstur í Danmörku en búa ekki þar.
I-nemendur og S-nemendur
Það ræðst af grundvelli dvalarinnar hvers konar dönskukennslu sveitarfélaginu ber að veita. Í lögum um dönskukennslu er greint á milli I-nemenda og S-nemenda.
- I-nemendur eru flóttafólk og einstaklingar sem koma til Danmerkur vegna fjölskyldusameiningar.
- S-nemendur eru erlendir starfsmenn, námsmenn og svo framvegis. S-nemendum er boðin dönskukennsla í tengslum við kynningarferli og ber ekki skylda til þess að þiggja boðið. S-nemendur þurfa að greiða tryggingargjald sem nemur 2000 dönskum krónum þegar þeim býðst pláss á dönskunámskeiði. Gjaldið er endurgreitt ef nemandinn stenst próf námskeiðsins innan tilskilins frests.
Um dönskukennslu
Dönskukennslunni er skipt í þrjár leiðir:
- Dönskukennsla 1 er fyrir nemendur sem ekki kunna að lesa og skrifa á móðurmáli sínu eða hafa ekki tök á evrópskri leturgerð. Markmiðið er að ná grundvallartökum á dönsku í ræðu og riti til þess að geta komist af á vinnumarkaði og í samfélaginu. Dönskukennslu 1 lýkur með prófi í dönsku 1.
- Dönskukennsla 2 er ætluð nemendum sem hafa litla skólagöngu frá heimalandinu. Markmiðið er að geta skilið, talað og lesið dönsku til þess að geta komist af á vinnumarkaði og í samfélaginu. Dönskukennslu 2 lýkur með prófi í dönsku 2.
- Dönskukennsla 3 er ætluð nemendum sem hafa meðallanga eða langa skólagöngu frá heimalandinu. Það getur átt við um starfsmenntun, framhaldsskólamenntun eða háskólamenntun. Markmiðið er að geta stundað nám sem krefst sérþekkingar eða framhaldsmenntun ásamt því að taka virkan þátt í samfélaginu. Dönskukennslu 3 lýkur með prófi í dönsku 3. Einnig er hægt að ljúka náminu á hæsta stigi með Studieprøven sem krafist er til þess að fá aðgang að háskólanámi í Danmörku.
Mörg sveitarfélög bjóða upp á dönskunámskeið sem ætluð eru einstaklingum sem tala reiprennandi norsku eða sænsku.
Dönskukennsla fyrir ungmenni undir 18 ára
Ungmenni yngri en 18 ára geta að jafnaði fengið dönskukennslu í skólanum eða í ungmennaskóla á vegum sveitarfélagsins. Nánari upplýsingar veitir sveitarfélagið.
Nánari upplýsingar um dönskukennslu í Danmörku
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.