Tollareglur í Finnlandi

Tullisäännöt Suomessa
Hér er sagt frá tollareglum sem gilda um flutninga á búslóð og ýmiss konar innflutning í Finnlandi. Að auki er sagt frá tollareglum um vörur sem pantaðar eru hjá erlendum netverslunum og um gjafasendingar frá öðrum löndum.

Aðrar tollareglur gilda um búslóð og vörur sem fólk flytur inn frá ESB-löndum en frá löndum utan ESB.

Búslóðaflutningar til Finnlands frá öðru ESB-landi

Ekki er innheimtur tollur milli Evrópusambandslanda og því þarftu ekki að greiða neinn toll af eigum þínum ef þú flytur frá Svíþjóð eða Danmörku til Finnlands. Þú þarft heldur ekki að skila innflutningskýrslu. Áfengi og tóbak er þó undanskilið frá þessari reglu. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði finnska tollstjórans.

Hyggist þú flytja bíl eða annað ökutæki inn til Finnlands skaltu leita nánari upplýsinga á síðunni Ökutæki í Finnlandi. 

Búslóðaflutningar frá landi utan ESB

Þegar flutt er til Finnlands frá landi utan tollasvæðis ESB þarf að gera grein fyrir búslóðinni við tollayfirvöld.

Almennt leyfist þér að flytja búslóð þína til Finnlands án þess að greiða toll eða virðisaukaskatt ef þú hefur haft fasta búsetu utan ESB samfleytt í að minnsta kosti 12 mánuði og búslóðin hefur verið í þinni vörslu og notkun í að minnsta kosti sex mánuði.  Þú þarft að gera grein fyrir búslóðinni í tollskýrslu þegar hún kemur til Finnlands.

Hafir þú haft fasta búsetu utan ESB skemur en í 12 mánuði er hægt að líta á muni, sem þú keyptir áður frá Finnlandi með virðisaukaskatti og flutt með þér út fyrir tolla- og skattsvæði ESB, sem nokkurs konar skilavöru sem ekki þarf að greiða skatt af. Gera þarf grein fyrir munum sem keyptir voru erlendis í tollinum. 

Nánari upplýsingar um tollafgreiðslu eru á vefsvæði finnska tollstjórans. 

Innflutningur í farangri og sérstakar innflutningsreglur

Hafir þú verið á ferðalagi utan ESB-svæðisins getur þú komið með vörur sem þú keyptir á ferðalaginu til Finnlands í farangri þínum án þess að greiða af þeim skatt eða toll, upp að ákveðnu hámarksverðgildi. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði finnska tollstjórans.

Um dýr, áfengi, tóbak, lyf, matvæli og skotvopn gilda sérstakar innflutningsreglur. 

Tollareglur um netverslun og gjafasendingar

Sé vara sem þú pantar á netinu framleidd innan ESB eða tollafgreidd þar, þarft þú ekki að tollafgreiða vöruna eða greiða af henni innflutningsskatta. Fáir þú vöruna senda frá landi utan ESB þarf yfirleitt að tollafgreiða hana og greiða af henni toll og virðisaukaskatt. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði finnska tollstjórans.

Fáir þú senda gjöf frá landi utan tolla- og skattasvæðis ESB þarft þú að tollafgreiða vöruna og greiða þá innflutningsskatta sem kunna að verða innheimtir. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði finnska tollstjórans.

Nánari upplýsingar 

Hvar fæ ég nánari upplýsingar? 

Hafið samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna