Að loknu COP15 í Montreal: Kallað er eftir fjármögnun og nýjum leiðum fyrir ungt fólk til að hafa áhrif

22.12.22 | Fréttir
demonstration
Photographer
Liam Maloney
Ungliðahreyfingar voru áberandi á fundi SÞ um líffræðilega fjölbreytni í Montreal. Nú vill unga fólkið koma að því að tryggja að staðið verði við hinn nýja samning. En eftir hvaða leiðum getur ungt fólk haft áhrif og hvernig á að fjármagna það? Þessa umræðu tóku Norðurlönd upp á COP15 í Montreal.

Viðræður um samning SÞ um náttúruna stóðu yfir í tvær vikur í Montreal að viðstöddum fulltrúum frá 188 ríkisstjórnum.

Á hverjum degi voru ungliðahreyfingarnar viðstaddar og héldu á lofti sínum sjónarmiðum.Unga fólkið var vel að sér og vel skipulagt. Það þrýsti á um að setja markið hátt í samningnum og náði mörgum af kröfum sínum í gegn.


 

Ungt fólk hefur ekki efni á að taka þátt

En ungliðahreyfingarnar hafa líka vakið máls á þeim sem ekki voru á staðnum, sem ekki fengu ferðalag og uppihald greitt, eða sem höfðu ekki úr nógu miklu að moða til að skipuleggja sig.

Það er kostnaðarsamt og tímafrekt að byggja upp þekkingu á líffræðilegri fjölbreytni og getu til að hafa áhrif á alþjóðlegar samningaviðræður.

 

„Það er svo margt ungt fólk þarna úti sem vill taka þátt en getur það ekki. Ég nýt mikilla forréttinda að geta verið hér, jafnvel þótt vinna mín hér sé ólaunuð,“ sagði Perla Sigrún Gísladóttir þegar hún tók þátt í umræðum á vegum norræns samstarfs á COP15 í Montreal.

Ungeklimarådet í Danmörku gæti verið fyrirmynd

Á málþinginu „Better Finance for Youth – The need for Political Commitment and Institutional support“ greindi ungt fólk frá bæði tungumála- og þekkingartengdum hindrunum þegar kemur að því að sækja fjármagn. Þau kölluðu eftir fyrirkomulagi við að afla fjár og þekkingar og hafa áhrif sem hefði betri tengingu við hvern stað fyrir sig.

 

Jafnframt töluðu þau um leiðir til að tryggja áhrif ungs fólks þegar kemur að framkvæmd nýja samningsins í hverju landi. Ungeklimarådet í Danmörku gæti verið öðrum norrænum löndum fyrirmynd í því að stofna ungmennaráð um loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni, en umræða um það fer nú fram í nokkrum norrænu landanna.

 

Kalla eftir aukinni fjármögnun fyrir ungt fólk

Bæði Nordic Youth Biodiversity Network og alþjóðlegt samstarfsnet ungmennahreyfinga, Global Youth Biodiversity Network, hafa vakið athygli á þörfinni á að fjármagna aðkomu ungs fólks. 

Í Nordic Youth Position Paper on Biodiversity setja 3000 ungir Norðurlandabúar fram 19 kröfur í tengslum við viðræður um líffræðilega fjölbreytni.

Fjórar af kröfunum tengjast aukinni fjármögnun fyrir ungt fólk, einkum úr hópi frumbyggja, og einnig uppbyggingu þekkingar og getu til þátttöku í samningaviðræðum.

Norrænt samstarfsnet ungs fólks hefur byggt upp þekkingu

Það er norrænt samstarf sem fjármagnar starfsemi samstarfsnetsins og stóð einnig straum af kostnaði við þátttöku 14 norrænna fulltrúa ungs fólks á COP15.

Lene Westgaard-Halle, norskur meðlimur í norrænu sjálfbærninefndinni, er ánægð með niðurstöðuna.   

„Ég hef hitt norrænt samstarfsnet ungs fólks hér við þessar viðræður og er mjög hrifin af háu þekkingarstigi og skipulögðum vinnubrögðum þeirra. Ég sé þörfina á fjármögnun til lengri tíma á þátttöku ungs fólks í umhverfismálum, bæði staðbundið og á heimsvísu. Ég tel að skoða beri lausnir á sviði samstarfs opinberra aðila og einkaaðila,“ segir Lene Westgaard-Halle.

Ungt fólk á að koma að framkvæmd samningsins

Hinn nýi alþjóðlegi samningur um líffræðilega fjölbreytni sem ríki heimsins komu sér saman um í Montreal er skýr varðandi mikilvægi aðkomu ungs fólks.

Það þýðri meðal annars að helsta fjármögnunarstofnun umhverfissamtaka, GEF, The Global Environment Facility, þarf að byrja að velta því fyrir sér hvernig efla megi fjármögnun fyrir ungt fólk sem vill leggja sitt af mörkum við framkvæmd samnings SÞ um líffræðilega fjölbreytni.

Ungt fólk er samningafólk framtíðarinnar

„Í dag erum við ekki í stöðu til þess að fjármagna þátttöku ungs fólks á COP. En þar sem þetta snýst um að búa til samningafólk framtíðarinnar hefur bein fjármögnun verið rædd hjá okkur. Við erum tilbúin að halda því samtali áfram við ungmennahreyfingarnar,“ sagði Paola Ridolfi, yfirmaður rekstrar og stefnumótunar hjá GEF.

Norðurlönd veittu ungu fólki tækifæri til að hafa áhrif

Árið 2019 ýtti norræna sjálfbærninefndin úr vör verkefni sem ætlað er að auka aðkomu ungs fólks að nýjum alþjóðlegum samningi um líffræðilega fjölbreytni og naut verkefnið mikils stuðnings norrænu ríkisstjórnanna.

Verkefnið hefur leitt til þess að ungir Norðurlandabúar sem láta sig umhverfið varða hafa bundist höndum í Nordic Youth Biodiversity Network sem nú er hluti af hinni alþjóðlegu ungmennahreyfingu.

Norræn fjármögnun í skoðun

Norræna sjálfbærninefndin hefur látið kanna möguleikana á því að stofna norrænan sjóð í tengslum við vinnu ungs fólk á sviði loftslagsmála og líffræðilegrar fjölbreytni, en vinnan við það stendur nú yfir.

Jafnframt hefur nefndin lagt það til að norrænu löndin setji á fót ungmennaráð um loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni þar sem ungu fólki gefst tækifæri til að hafa áhrif.

Nánari upplýsingar: