Nefnd kallar eftir efldu samstarfi á sviði menningar og menntunar eftir COVID-19

03.06.20 | Fréttir
Barn i skolan
Ljósmyndari
Yadid Levy/norden.org
Tónleikum og leiksýningum hefur verið aflýst, skólum lokað, kennsla færð á netið og nánast allt íþróttastarf á Norðurlöndum hefur legið niðri. Þetta eru nokkur dæmi um afleiðingar kórónufaraldursins og í sameiginlegri yfirlýsingu norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar er hvatt til aukins norræns samstarfs, meðal annars á sviði menningar, menntamála og rannsókna.

Á aukafundi nefndarinnar, sem fór fram gegnum fjarfundabúnað þann 18. maí, miðluðu fulltrúar reynslu norrænu ríkjanna af aðgerðum til að milda áhrif kórónufaraldursins á samstarfssviðum nefndarinnar, þ.e. sviðum menntamála, rannsókna, menningar, íþrótta, félagsstarfs og borgaralegs samfélags. 

 

Stafrænar lausnir og hætta á aukinni útilokun

Skólalokanir hafa verið með ýmsu móti í löndunum og nú þegar hafa margir skólarnir verið opnaðir á ný. Við vitum ekki enn hver áhrif skólaopnana verða á dreifingu smits eða hvaða aðgerðir munu reynast áhrifaríkastar. Á fundinum ræddu fulltrúarnir þörf fyrir auknar rannsóknir á nýjum stafrænum lausnum og á afleiðingum faraldursins fyrir börn og ungt fólk í áhættuhópum. Í yfirlýsingunni er sérstök áhersla lögð á samstarf yfirvalda:

- Nefndin kallar einnig eftir því að norræn skólayfirvöld skiptist í auknum mæli á reynslu af leiðum til að sporna gegn neikvæðum áhrifum faraldursins á nemendur og kennara, svo að löndin geti nýtt sér reynslu hvers annars til að mæta sambærilegum aðstæðum í framtíðinni.

Nú er tíminn fyrir eflt samstarf

Óvíst er hversu lengi heimsfaraldurinn mun vara og hverjar afleiðingar hans verða og norrænt samstarf er því þýðingarmeira en nokkru sinni fyrr. Nefndin undirstrikaði mikilvægi þess að norrænu ríkin læri hvert af öðru svo að þau geti betur búið sig undir framtíðina.

 

- Það verður að öllum líkindum nokkuð langt þar til lífið kemst aftur í eðlilegt horf. Við þurfum að læra að búa við nýjan veruleika. Með nefndarstarfinu gefst okkur einstakt tækifæri til að öðlast þekkingu og skilning á öllum þeim aðgerðum sem norrænu ríkin hafa gripið til á þessum krepputímum, sagði Kjell-Arne Ottosson, formaður nefndarinnar, eftir að uppbyggilegum fundi nefndarinnar lauk. 

 

Sameiginlegu yfirlýsingunni lauk með skýrum skilaboðum til ráðherranna:

- Við sjáum greinilega þörf á auknu samstarfi í núverandi aðstæðum og viljum því beina athygli ráðherranefndarinnar um menntamál og rannsóknir annars vegar, og ráðherranefndarinnar um menningarmál hins vegar, að mikilvægi þess að nefndirnar hafi sterka framtíðarsýn fyrir starf sitt í þágu Norðurlandabúa.

Nefndin vonast til þess að norrænu ríkin opni landamæri sín eins fljótt og auðið er, að minnsta kosti fyrir öðrum Norðurlandabúum.

Tengiliður