Skýrsla: Fjöldi norrænna karla mætist á vefsvæðum sem einkennast af kvenhatri

25.11.20 | Fréttir
man som sitter med en laptop
Photographer
pxhere.com
Ný kortlagning á virkni norrænna karla á vefsvæðum tengdum kvenhatri sýnir að um 850 norrænir karlmenn eru virkir notendur á slíkum vefsvæðum. Í skýrslunni kemur fram að niðrandi orðfæri og viðhorf gegn konum sem einkenni þessi vefsvæði færist einnig yfir á samfélagsmiðla almennt.

Norræna skýrslan „The Angry Internet“ inniheldur greiningu á kvenhaturshópum á Norðurlöndum sem unnin var á grundvelli ríflega 100 þúsund færslna og athugasemda, sem bera vott um kvenhatur, af vefsvæðum á borð við 4chan, 8chan og Reddit. Skýrslan, sem unnin var af Center for Digital Pædagogik í Danmörku, sýnir að á tilteknum vefsvæðum koma ungir norrænir menn saman og mynda eins konar bræðralög þar sem kynt er undir hatri í garð kvenna og kynjajafnréttis. Samkvæmt skýrslunni bendir ekkert til þess að einn eða fleiri þessara norrænu manna muni grípa til aðgerða út frá afstöðu sinni, eins og gerst hefur í öðrum löndum. 
 
 
 

Mikilvæg þekking á kvenhatri á netinu

„Skýrslan inniheldur nýja og mikilvæga þekkingu á hinum margvíslegu birtingarmyndum kvenhaturs á netinu. Hún sýnir hvernig ungir karlmenn taka sér stöðu gegn ríkjandi samfélagsviðmiðum og fylkja sér um gildi og viðmið sem eru í beinni andstöðu við kynjajafnrétti og kvenréttindi, sem eru lykilstoðir í samfélagsgerð okkar,“ segir Peter Hummelgaard, atvinnumála- og jafnréttisráðherra í Danmörku.  
 

INCEL og Men‘s Rights Activists

Í skýrslunni er nokkrum mismunandi karlahreyfingum lýst. Ein slík hreyfing kallar sig INCEL – sem stendur fyrir „involuntary celibates“, eða karlmenn sem telja sig skírlífa gegn eigin vilja – og meðlimir hennar deila þeirri skoðun að konur neiti þeim um það kynlíf sem þeir eigi rétt á sem karlmenn. Önnur hreyfing er MRA, „Men‘s Rights Activists“ eða karlréttindabaráttusinnar. Þeir sjá kvenréttindi og femínisma sem ógnir við samfélagið sem berjast þurfi gegn.
 

Einmana karlar

Í skýrslunni er vitnað í ýmsa norræna meðlimi þessara nethreyfinga sem halda því meðal annars fram að börn einstæðra mæðra leiðist út í glæpi: „Að leyfa einstæðri móður að ala upp barn gerir aðstæður BARA verri fyrir barnið, konur eru ömurlegir leiðtogar“, er tilvitnun í einn þessara notanda sem klykkir svo út með eftirfarandi: „Samfélag þar sem karlmanni leyfist ekki að stjórna sinni lakari hliðstæðu, konunni, verður skítasamfélag“. Í skýrslunni kemur fram að ungir karlmenn sem sæki í þessar hreyfingar geri það til að byrja með sökum eigin viðkvæmni og einmanaleika. Til að verða teknir inn í bræðralagið tileinki þeir sér kvenfjandsamleg viðhorf og gildi, því að samheldnin sé þeim mikilvægari en viðhorfin.
 
 

Erfitt að vera viðkvæmur

„Við vinnslu þessa verkefnis hittum við marga unga karlmenn sem hafa reynt að koma orðum að ofsafenginni reiði, en endað á að tjá sig um eigin viðkvæmni. Þessir menn hafa skapað sína eigin andófsmenningu því þeir upplifa sig svo langt fyrir utan þau svið samfélagsins sem þeim finnst allir aðrir passa inn í. Þeir sameinast í krafti þess að vera „á móti“ því samfélagi sem þeim finnst þeim vera haldið fyrir utan,“ segir Christian Mogensen hjá Center for Digital Pædagogik og meðhöfundur skýrslunnar „The Angry Internet“.

 

„Karlmönnum reynist oft erfitt að vera viðkvæmir – viðkvæmni þeirra er oft talin til veikleika – og því brýst viðkvæmni margra karla út í ofsafengnum fjandskap sem getur verið skaðlegur fyrir jafnrétti, lýðræði og einkum fyrir líðan karlanna sjálfra.“
 

Lýðræðislegt vandamál

Í skýrslunni kemur fram að hatursfullt og niðrandi orðfæri á þessum vefsvæðum geti færst yfir á samskipti almenns eðlis á samfélagsmiðlum. 
 
„Það er lýðræðislegt vandamál ef konur eiga sérstaklega á hættu að verða fyrir hatursfullum ummælum og draga sig þá kannski í hlé frá opinberri umræðu, eða ef kvenfjandsamleg gildi verða útbreidd í samfélaginu. Á grundvelli þeirrar nýju þekkingar sem skýrslan hefur að geyma hyggjumst við efna til alþjóðlegrar ráðstefnu fyrir fagfólk á næsta ári til að skoða hvernig við getum sem best mætt þessari áskorun og stuðlað að því að allt fólk – óháð kyni – hafi jafna möguleika á þátttöku í opinberri umræðu,“ segir Peter Hummelgaard, atvinnumála- og jafnréttisráðherra.
 

Alþjóðleg kynning

Skýrslan „The Angry Internet“ verður kynnt ásamt niðurstöðum á rafrænum, alþjóðlegum kynningarviðburði þar sem fram koma höfundar skýrslunnar, norrænir sérfræðingar, framkvæmdastjóri jafnréttismála hjá ESB, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins á sviði mannréttinda, aðstoðarframkvæmdastjóri UN Women og framkvæmdastjóri og stofnandi Promondo og hinnar alþjóðlegu herferðar „MenCare“.
  
Rannsóknin var unnin af Center for Digital Pædagogik í Danmörku að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar og er framkvæmd hennar liður í formennsku Danmerkur í ráðherranefndinni 2020.