Forgangsröðun fram undan í norrænu samstarfi

03.09.19 | Fréttir
De nordiska samarbetsministrarna september 2019

De nordiska samarbetsministrarna Mogens Jensen (Danmark), Nina Fellman (Åland), Sigurður Ingi Jóhannsson (Island), Ann Linde (Sverige), Thomas Blomqvist (Finland) och Nordiska ministerrådets generalsekreterare Paula Lehtomäki.

Photographer
Mary Gestrin

Norrænu samstarfsráðherrarnir Mogens Jensen (Danmörku), Nina Fellman (Álandseyjum), Sigurður Ingi Jóhannsson (Íslandi), Ann Linde (Svíþjóð), Thomas Blomqvist (Finnlandi) og Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna um miðjan ágúst lýstu þeir því yfir að loftslagsmál og sjálfbær þróun ættu að hafa meiri forgang í samstarfinu. Samkvæmt nýrri framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar eiga Norðurlöndin að vera sjálfbærasta svæði heims. Nú verða verkin látin tala. Á fundi norrænu samstarfsráðherranna þann 3. september var rætt um innleiðingu framtíðarsýnarinnar. Ráðherrarnir voru sammála um að fjárhagsáætlun samstarfsins ætti að vera tæki til þess að stefnumótandi áherslur hennar yrðu að veruleika.

Framtíðarsýnin er sú að Norðurlöndin verði grænt, samkeppnishæft og félagslega sjálfbært svæði. Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Íslands, stjórnaði fundinum og lagði áherslu á mikilvægi þess að byggja upp grænt samfélag:

„Við verðum að breyta stefnu okkar í þá veru að samfélög okkar, hagkerfi og lífshættir verði almennt sjálfbærari.“

Aukið erindi til almennings

Sigurður Ingi undirstrikaði að framtíðarsýnin ætti eftir að hafa áhrif á starfið innan Norrænu ráðherranefndarinnar.

„Farið verður yfir öll samstarfssvið og í þeirri undirbúningsvinnu sem nú er að hefjast er markmiðið að tryggja fé fyrir áætlanir, verkefni og starfsemi í anda framtíðarsýnarinnar.“

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, telur að sú forgangsröðun sem nú á sér stað sé mikilvæg:

„Forsætisráðherrarnir tóku skýrt fram að þeir létu sér ekki nægja málamyndabreytingar á samstarfinu. Þeir gera ráð fyrir skýrri forgangsröðun og sú vinna er að hefjast.“

Stefnt er að því að samstarfið höfði enn meira til norræns almennings. Þess vegna felst vinnan einnig í beinum samskiptum við félagasamtök.

 

Við verðum að breyta stefnu okkar í þá veru að samfélög okkar, hagkerfi og lífshættir verði almennt sjálfbærari.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Nú hefst undirbúningurinn á Norðurlöndum

„Við viljum svo sannarlega að árangur starfsins sé í samræmi við væntingar almennings til samstarfsins,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson. Hann bendir á að við stöndum frammi fyrir sams konar áskorunum og því sé rétt og skynsamlegt að við bregðumst við þeim í sameiningu.

Samskiptin við almenning munu eiga sér stað á samfélagsmiðlum en einnig á fjölmennum málstofum.