Kaup á vöru og þjónustu í Finnlandi
Í Finnlandi eru vissir þjónustusamningar aðeins í boði fyrir fólk með finnska kennitölu. Sömuleiðis getur það takmarkað notkun á vissum þjónustuleiðum að hafa ekki finnska kennitölu.
Sími
Núorðið eiga nánast allir íbúar Finnlands sinn eigin farsíma. Þess vegna eru svo gott sem engir almenningssímar eða símaklefar í notkun lengur.
Farsímaáskrift
Sumir þjónustuaðilar gera kröfu um finnska kennitölu til að stofna til fastrar farsímaáskriftar með mánaðargjaldi.
Í stað fastrar áskriftar er hægt að velja svokallaða frelsisáskrift, þar sem greitt er fyrirfram fyrir notkun. Alla jafna þarf ekki að hafa finnska kennitölu til að stofna til frelsisáskriftar. Hægt er að stofna til frelsisáskriftar og kaupa viðbótargagnamagn í útibúum símafyrirtækja eða hinum ýmsu verslunum og sjoppum. Til þess að kaupa frelsi eða gagnamagn á netinu þarf alla jafna að hafa finnska kennitölu.
Heimasímaáskrift
Heimasímar með landlínutengingu verða æ sjaldséðari í Finnlandi. Þjónustuaðilar bjóða enn upp á heimasímaþjónustu, en hvetja neytendur til þess með markaðssetningu sinni að nota farsíma.
Internetþjónusta
Samskipti einstaklinga við opinberar stofnanir og fyrirtæki fara núorðið að stórum hluta fram í gegnum internetið. Bankar veita þjónustu sína í æ meiri mæli á netinu og sumir þeirra rukka viðskiptavini jafnvel um sérstakt þjónustugjald fyrir að greiða reikninga í útibúi fremur en í netbankanum. Einnig er hægt að sækja um bætur hjá almannatryggingastofnun (Kela) og skila skattframtali á netinu. Þegar slíkum persónulegum málum er sinnt gegnum netið þarf fólk að auðkenna sig með innskráningu í netbanka eða rafrænu nafnskírteini.
Nettengdar tölvur fyrir almenning eru meðal annars á bókasöfnum. Einnig eru margir bankar með tölvur í útibúum sínum fyrir viðskiptavini til að nota netbanka í og greiða reikninga. Margar vinnumiðlunarskrifstofur eru með nettengdar tölvur sem fólk getur nýtt sér í atvinnuleit.
Á opinberum stöðum á borð við bókasöfn, skóla og veitingastaði er oft þráðlaust net sem viðskiptavinir geta tengst í eigin fartölvum án endurgjalds.
Að stofna til internetáskriftar
Sumir þjónustuaðilar gera kröfu um finnska kennitölu til að stofna til internetáskriftar. Einnig getur þurft finnskt símanúmer til að nýta netverslanir sumra þjónustuaðila.
Frelsisáskrift er hægt að kaupa án finnskrar kennitölu, en þá er greitt fyrirfram fyrir netnotkun.
Rafmagn
Yfirleitt semja einstaklingar beint um rafmagnsnotkun sína við þjónustuaðila, hafi ekki verið samið um annað við leigusala eða húsfélag. Hægt er að velja söluaðila hvar sem er í Finnlandi til að semja við um sölu á rafmagni, en um dreifingu á rafmagni skal ávallt semja við dreifiveitu í heimabyggð. Í Finnlandi er sala og dreifing rafmagns ekki á hendi sömu aðila. Þó nægir í raun að viðskiptavinurinn hafi samband við söluaðila rafmagns, sem getur þá séð um að semja við dreifiveitu fyrir hönd viðskiptavinarins.
Ekki þarf að hafa finnska kennitölu til að semja um rafmagnsnotkun. Söluaðilar rafmagns kunna þó að biðja um fæðingardag og -ár eða vegabréfsnúmer.
Hægt er að bera saman söluaðila og verð á rafmagni á vefsvæði finnsku orkustofnunarinnar.
Nánari upplýsingar um verð á rafmagni og samningagerð er að finna á vefsvæði finnska orkuiðnaðarins og hjá neytendaráðgjöf finnsku orkustofnunarinnar.
Sjónvarp
Til að geta tekið á móti stafrænum sjónvarpsútsendingum þarf að hafa netlykil sem ýmist er tengdur við sjónvarpstækið eða innbyggður í það. Hliðrænar (e. „analog“) sjónvarpsútsendingar voru lagðar niður í Finnlandi árið 2008. Í Finnlandi er ekki innheimt afnotagjald fyrir sjónvarpsnotkun en þess í stað greiða skattskyldir einstaklingar almannaútvarpsskatt.
Lánstraust
Á Norðurlöndum hafa einkafyrirtæki umsjón með upplýsingum um lánstraust. Slík fyrirtæki í norrænu löndunum hafa stofnað til samstarfssamninga sín á milli, sem þýðir að upplýsingar um lánstraust sem skráðar eru í einu landanna eru yfirleitt aðgengilegar í hinum löndunum líka.
Samkvæmt finnskum lögum eiga allir rétt á að nálgast upplýsingar um eigið lánstraust einu sinni á ári án endurgjalds. Hægt er að athuga slíkar upplýsingar með því að mæta á staðinn eða með því að senda beiðni til viðeigandi fyrirtækis.
Upplýsingar um lánstraust einstaklinga eru ekki sóttar án þeirra vitundar. Eftir að upplýsingarnar hafa verið sóttar eru þær aðeins aðgengilegar í takmarkaðan tíma.
Vandamál
Ef vandamál koma upp er hægt að hafa samband við finnsku neytendaráðgjöfina. Þar eru veittar upplýsingar um réttindi og skyldur neytenda, aðstoð við að greiða úr ágreiningsmálum milli neytenda og fyrirtækja og ráðgjöf um m.a. fasteignaviðskipti.
Komi upp ágreiningsmál varðandi viðskipti yfir landamæri Finnlands er hægt að hafa samband við Evrópsku neytendaaðstoðina.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.