Upprætum launabilið milli kvenna og karla

01.11.18 | Fréttir
Nina Sandberg, Nordisk Råds Velfærdsudvalg

Nina Sandberg, velferðarnefnd Norðurlandaráðs

Norðurlöndin eiga að vera með sameiginlega jafnlaunavottun þar sem vinnustaðir tryggja jöfn laun starfsmanna sinna, óháð kyni. Ísland er þegar komið með jafnlaunavottun og ætlun velferðarnefndar Norðurlandaráðs er að önnur Norðurlönd fylgi í kjölfarið.

„Sameiginleg jafnlaunavottun getur fært okkur enn nær algeru jafnrétti á Norðurlöndum,“ segir Nina Sandberg frá Verkamannaflokknum í Noregi og fulltrúi í velferðarnefnd Norðurlandaráðs. Hún hefur ásamt öðrum fulltrúum í flokkahópi jafnaðarmanna lagt tillöguna fyrir Norðurlandaráð. Samstaða ríkir á þingi Norðurlandaráðs í Ósló um að fara með tillöguna áfram til norrænu ríkisstjórnanna svo hægt verði að innleiða jafnlaunavottun á öllum Norðurlöndum.   

Sameiginleg jafnlaunavottun getur fært okkur enn nær algeru jafnrétti á Norðurlöndum.

Nina Sandberg, fulltrúi í velferðarnefnd Norðurlandaráðs

Hægt að sjá kostina

Markmiðið er að vottunin, sem þróuð er í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, uppræti launabilið milli kvenna og karla sem eðli málsins samkvæmt mun gagnast hverri og einni konu. Tillagan felur einnig í sér að Norðurlöndin vinni að jafnrétti milli karla og kvenna með tilliti til fullra starfa og hlutastarfa þar sem fleiri konur vinna hlutastörf en karlar. Tölur úr skýrslu frá OECD sýna nefnilega að ef konur hefðu tækifæri til þess að vinna eins mikið og karlar, gæti verg þjóðarframleiðsla aukist um 15 til 30 prósent. Það hefur sem sagt verið sýnt fram á þjóðhagslegan ávinning.  

Þó að Norðurlöndin séu komin langt á sviði jafnréttismála þá er vinnumarkaðurinn samt sem áður kynskiptur með mörgum hlutastörfum og launamun milli kvenna og karla. Norðurlöndin verða að takast á við þetta með því að miðla reynslu sín á milli og virkja nýjar aðferðir. Jafnlaunavottun gott dæmi um að þetta sé gert.

Bente Stein Mathiesen, formaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs.

Þróað á Íslandi og útbreitt á Norðurlöndum

„Þó að Norðurlöndin séu komin langt á sviði jafnréttismála þá er vinnumarkaðurinn samt sem áður kynskiptur með mörgum hlutastörfum og launamun milli kvenna og karla. Norðurlöndin verða að takast á við þetta með því að miðla reynslu sín á milli og virkja nýjar aðferðir. Jafnlaunavottun gott dæmi um að þetta sé gert,“ segir Bente Stein Mathiesen, formaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs. Ísland hefur gengið á undan á þessu sviði og hefur verið með jafnlaunavottun í nokkur ár. Fyrst var vottunin valkostur en árið 2018 var hún lögfest fyrir vinnustaði með fleiri en 25 starfsmenn. Tillaga velferðarnefndarinnar tekur til þess að þróa sameiginlega norræna jafnlaunavottun, vinna að því að draga úr kynskiptingu á vinnumarkaði og draga úr kynbundnu námsvali.      

Hafi konur tækifæri til þess að vinna eins mikið og karlar getur verg þjóðarframleiðsla aukist um 15 til 30 prósent.

OECD-skýrslan Is the Last Mile the Longest