Háskólamenntun í Svíþjóð

Studerende på et bibliotek
Photographer
Yadid Levy/Norden.org
Hér eru gefnar upplýsingar um háskólamenntun í Svíþjóð og umsóknir, inntökuskilyrði, kvóta og umreikning einkunna.

Menntun á vegum opinberra aðila í Svíþjóð er ókeypis fyrir norræna ríkisborgara. Einkareknar menntastofnanir geta hins vegar innheimt skólagjöld.

Í Svíþjóð er hægt að sækja sér æðri menntun í háskólum. Ekki er mikill munur á háskólum sem kallaðir eru „universitet“ eða „högskola“. Þú getur sótt um rannsóknarnám að loknu grunnnámi við „universitet“ en það er aftur á móti ekki alltaf hægt eftir „högskola“.

Ef þú stundar háskólanám geturðu valið á milli námsleiða með fyrirframákveðinni framvindu eða sett námið saman að eigin vild. Háskólanám er í þremur þrepum: 1) grunnnám, 2) framhaldsnám og 3) rannsóknarnám. Í Svíþjóð er bakkalárgráða nefnt „kandidat“ eða „bachelor“ og er hún veitt að loknu grunnnámi. Framhaldsnám til meistaragráðu tekur tvö ár. Einnig er boðið upp á styttra nám á framhaldsstigi. Þá er um að ræða eins árs magisterpróf („magister“).

Á sviðum hugvísinda, félagsvísinda og raunvísinda er algengt að nemendur setji sjálfir saman nám sitt en í lagadeild, tæknigreinum og læknanámi er algengara að námið fylgi fastmótaðri framvindu. Boðið er upp á starfsmenntun í heilum námsleiðum undir eigin heitum.

Háskólanám í Svíþjóð mælist í einingum (háskólaeiningum) þar sem eitt ársverk í 40 vikur samsvarar 60 einingum og ein önn samsvarar 30 einingum. Menntastofnanir veita upplýsingar um markmið náms og einingafjölda fyrir hvert námskeið í námskeiðslýsingum.

Upplýsingar um fög, menntastofnanir og námsmannalífið í Svíþjóð er að finna á Studera.nu.

Umsóknir

Ef þú hefur lokið stúdentsprófi annars staðar á Norðurlöndum geturðu sótt um háskólanám í Svíþjóð. Kynntu þér umsóknarferlið, umsóknarfresti, inntökuskilyrði, hvernig einkunnar þínar eru umreiknaðar og hvaða skjöl þarf að senda inn til að fá inngöngu í háskóla í Svíþjóð.

Umsóknarferli

Þú getur leitað að námi á Antagning.se. Þú getur valið námskeið eða heilt námsferli. Nefndu það nám sem þú kýst helst fremst í umsókninni. Þú getur breytt forgangsröðun allt þar til umsóknarfrestur rennur út.

Þú stofnar notandalýsingu og velur námskeið á Antagning.se áður en þú sendir umsókn þína um nám. Á Antagning.se geturðu einnig lesið reglur um aðgang að námi og hvaða gögn þú þurfir að flytja upp og senda með umsókninni. Mundu að þiggja eða afþakka nám sem þér er boðið. Sá háskóli sem þú sækir um hefur samband við þig þegar styttist í að námið hefjist.

Umsóknarfrestur

Hafa þarf ýmsar dagsetningar í huga fyrir umsóknartímabilið og meðan á því stendur. Á Antagning.se má sjá hvaða dagsetningar gilda fyrir mismunandi annir.

Inntökuskilyrði

Aðgangur að háskólanámi í Svíþjóð krefst ákveðins undirbúnings. Á universityadmissions.se, antagning.se og vefsíðum menntastofnana finnurðu upplýsingar um inntökuskilyrði einstakra námsleiða sem þú hefur áhuga á.

Inntökuskilyrði eru ýmis konar á háskólastigi í Svíþjóð. Skilyrðin skiptast í grunnskilyrði sem gilda fyrir allt háskólanám og sérstök skilyrði sem gilda fyrir visst nám sem krefst sérstakrar forþekkingar.

Þú uppfyllir grunnskilyrði ef þú hefur lokið framhaldsskólanámi sem veitir aðgang að háskólanámi í viðkomandi landi. Ef þú uppfyllir ekki grunnskilyrðin geturðu bætt við námið með því að stunda nám fullorðinna.

Aðgangur að flestu háskólanámi í Svíþjóð krefst einnig sérstakrar forþekkingar. Það fer eftir námsleiðum hvaða hvaða kröfur eru gerðar. Yfirleitt þarftu að hafa staðist próf í ákveðnum greinum í framhaldsskóla.

Umsóknarkvótar

Þegar fleiri sækja um nám en komast að fylgir sætaskiptingin ákveðnum kvótum. Óháð menntun þinni þarftu að sýna fram á að þú standist grunnskilyrðin.

Þú getur sótt um háskólanám eftir ýmsum kvótum ef þú getur bætt við grunnskilyrðin eftir ýmsum leiðum.

Einkunnahópur 1 (beinn aðgangur – BI)) er fyrir umsækjendur sem hafa lokið framhaldsskólanámi sem veitir rétt til háskólanáms.

Einkunnahópur 2 (aukahópur – BII) er fyrir umsækjendur sem hafa lokið viðbótarnámi hjá Komvux í Svíþjóð til að uppfylla inntökuskilyrði.

Háskólaprófið er inntökupróf fyrir þá umsækjendur sem eru óvissir um hvort þeir komist inn í BI. Þú getur tekið háskólaprófið og sótt um með niðurstöðu þess. Prófið er haldið í ýmsum skólum í Svíþjóð tvisvar á ári. Ef niðurstaða prófsins er ekki góð mun menntastofnunin þess í stað líta til meðaleinkunnar stúdentsprófs.

Þú getur kynnt þér skráningu og tímasetningar háskólaprófsins á Studera.nu. Þú getur undirbúið þig með því að skoða fyrri háskólapróf sem finna má á Studera.nu eða á Högskoleprovguiden.

Tungumálakröfur

Ef þú hyggst sækja um háskólanám í Svíþjóð þarftu að vera með stúdentspróf. Auk þess þarftu að hafa góða færni í sænsku og ensku. Ef þú ert með stúdentspróf frá öðru norrænu landi gildir það sem staðfesting þess að þú uppfyllir kröfur um ákveðna kunnáttu í sænsku.

Flest nám fer fram á sænsku. Ekki leyfa allar menntastofnanir nemendum að skrifa á öðru skandinavísku tungumáli í verkefnum og prófum. Ef kennsla í tiltekinni grein er á ensku fer prófið einnig fram á ensku.

Námsfólk annars staðar að á Norðurlöndum fær oft leyfi til að taka próf á dönsku, norsku eða sænsku, hvort sem þau eru skrifleg eða munnleg. Hafðu samband við námsráðgjafa á þeirri námsbraut í Svíþjóð sem þú hefur í huga til að fá upplýsingar um að þreyta próf á dönsku eða norsku.

Mat á erlendum einkunnum

Þú getur ekki sjálf/ur þýtt einkunnir þínar þegar þú sækir um nám í Svíþjóð.

Á vefsíðu sænska háskólaráðsins, Universitets- och högskolarådet, geturðu lesið hvernig framhaldsskólaeinkunnir þínar annars staðar á Norðurlöndum eru umreiknaðar yfir á sænskar einkunnir.

Skiptinám

Þú getur tekið hluta námsins í Svíþjóð með samningi við skóla í þínu landi. Hafðu samband við skólann þinn eða alþjóðaskrifstofu hans til að fá upplýsingar um hvaða námssamningar eru til staðar.

Þú getur einnig farið í skiptinám jafnvel þótt skólinn þinn hafi ekki gert samning við skólann í Svíþjóð sem þú vilt sækja um hjá. Hafðu samband við skólann sem þú vilt sækja um hjá til að fá upplýsingar um hvort þú getir fengið inngöngu sem gestanemandi („guest student“) eða „free mover“ í eina önn eða ár. Til að fá námskeið samþykkt í þinni námsleið þarf skólinn í heimalandi þínu að samþykkja þau námskeið sem þú tekur bæði fyrir fram og eftir á.

Námsmannasamtök

Í Svíþjóð eru til námsmannasamtök sem kallast „studentkår“. Námsmannasamtök eru hagmunasamtök háskólanema sem þeir stýra sjálfir. Allir sem stunda nám við sænska háskóla geta skráð sig í námsmannasamtök.

Fáðu nánari upplýsingar hjá menntastofnuninni þinni. Þú getur lesið nánar um málið á vefsíðu námsmannasamtakanna í Svíþjóð, Sveriges förenade studentkårer.

Samningur Norðurlandanna um aðgang að æðri menntun

Norðurlandaþjóðirnar hafa gert með sér samkomuleg um aðgang að æðri menntun á Norðurlöndum. Það þýðir að ef þú sækir um nám frá öðru norrænu landi geturðu sótt um nám hjá opinberum æðri menntastofnunum á sömu eða sambærilegu kjörum og umsækjendur viðkomandi lands. Norrænir ríkisborgarar þurfa ekki að greiða náms- eða skráningargjöld í Svíþjóð.

Ef þú ert ekki sænskur ríkisborgari þarftu að senda gögn sem staðfesta að þú sért ríkisborgari í öðru norrænu landi. Þú færð ákveðinn frest til að sýna fram á ríkisfang þitt. Ef þú ert ekki norrænn ríkisborgari en átt lögheimili á Norðurlöndum geturðu fengið undanþágu frá náms- og skráningargjöldum.

Áður en þú sækir um nám í Svíþjóð þarftu að kanna hvort námið sé viðurkennt í þínu landi og hvort þú getir unnið þar í landi þegar náminu lýkur. Þú getur haft samband við EURES-skrifstofuna eða aðra stofnun í heimalandi þínu sem sér um mat á erlendum prófgráðum.

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna