Háskólamenntun í Svíþjóð

Studerende
Ljósmyndari
Brooke Cagle / nsplash
Kynntu þér umsóknarferlið, umsóknarfresti, inntökuskilyrði, umreikning einkunna og hvaða skjöl þarf að senda inn til að fá inngöngu í háskóla, tækniháskóla eða fagháskóla í Svíþjóð.

Nám á grunnstigi og framhaldsstigi í háskóla telst til háskólamenntunar. Nám við fagskóla eða lýðháskóla eftir framhaldsskóla telst einnig til háskólamenntunar.

Í Svíþjóð er hægt að stunda nám á háskólastigi í háskólum og starfsgreinaháskólum. Ekki er mikill munur á háskólum sem kallaðir eru „universitet“ eða „högskola“. Hægt er að sækja um rannsóknarnám að loknu grunnnámi við „universitet“ en það er aftur á móti ekki alltaf hægt eftir „högskola“.

Það er töluverður munur á námi við fagháskóla og aðra háskóla. Helsti munurinn er eftirfarandi:

Háskólar (universitet/högskola)

 • Árafjöldi fram að prófi: 4-5
 • Starfsmiðað nám: Fer eftir námsbraut
 • Fræðilegt stig: Hátt
 • Kennslustundir á viku: 2-10
 • Tengsl við atvinnulífið: Lítil sem engin
 • Starfsnám á vinnustað: Oftast ekki

Fagháskóli 

 • Árafjöldi fram að prófi: 1-2
 • Starfsmiðað nám: Já
 • Fræðilegt stig: Miðlungshátt
 • Kennslustundir á viku: 18 
 • Tengsl við atvinnulífið: Mikil
 • Starfsnám á vinnustað: Já

Þrjú stig náms á háskólastigi í Svíþjóð

Ef þú stundar háskólanám geturðu valið á milli námsleiða með fyrirframákveðinni framvindu eða sett námið saman að eigin vild. Háskólanám er í þremur þrepum:

 1. Grunnnám
 2. Framhaldsnám
 3. Rannsóknanám

Í Svíþjóð er bakkalárgráða nefnt „kandidat“ eða „bachelor“ og er hún veitt að loknu grunnnámi. Framhaldsnám til meistaragráðu tekur tvö ár. Einnig er boðið upp á styttra nám á meistarastigi sem nefnist „magister“ og er eins árs nám.

Á sviðum hugvísinda, félagsvísinda og raunvísinda er algengt að nemendur setji sjálfir saman nám sitt en í lagadeild, tæknigreinum og læknanámi er algengara að námið fylgi fastmótaðri framvindu. 

Boðið er upp á starfsmenntun í heilum námsleiðum undir eigin heitum. Starfsmenntun er menntun með áherslu á faggreinar sem boðið er upp á í háskólum sem oft innihalda bæði fræðilega og verklega þætti. Kennaranám er dæmi um fræðilega starfsmenntun.

Inntökuskilyrði, umsóknarferli og umsóknarfrestir háskólanáms í Svíþjóð

Ef þú hefur lokið stúdentsprófi annars staðar á Norðurlöndum geturðu sótt um háskólanám í Svíþjóð. Þú þarft að stofna notanda og velja námskeið á Antagning.se áður en þú sendir inn umsókn þína um nám. Á Antagning.se geturðu einnig lesið reglur um aðgang að námi og hvaða gögn þú þarft að hlaða upp og senda með umsókninni. 

Þú getur leitað að námi í sænskum menntastofnunum á Antagning.se. Þú getur valið námskeið eða heilt námsferli. Nefndu það nám sem þú kýst helst fremst í umsókninni. Þú getur breytt forgangsröðun allt þar til umsóknarfrestur rennur út.

Hafa þarf ýmsar dagsetningar í huga fyrir umsóknartímabilið og meðan á því stendur. Á Antagning.se má sjá hvaða dagsetningar gilda fyrir mismunandi annir.

Mundu að þiggja eða afþakka nám sem þér er boðið. Sá háskóli sem þú sækir um hefur samband við þig þegar styttist í að námið hefjist.

Inntökuskilyrði háskólanáms í Svíþjóð

Aðgangur að háskólanámi í Svíþjóð krefst ákveðins undirbúnings. Á universityadmissions.se, antagning.se og vefsíðum menntastofnana finnurðu upplýsingar um inntökuskilyrði einstakra námsleiða sem þú hefur áhuga á.

Inntökuskilyrði eru ýmis konar á háskólastigi í Svíþjóð. Skilyrðin skiptast í grunnskilyrði sem gilda fyrir allt háskólanám og sérstök skilyrði sem gilda fyrir visst nám sem krefst sérstakrar forþekkingar.

Þú uppfyllir grunnskilyrði ef þú hefur lokið framhaldsskólanámi sem veitir aðgang að háskólanámi í viðkomandi landi. Ef þú uppfyllir ekki grunnskilyrðin getur þú bætt við námið með námi fyrir fullorðna.

Það fer eftir námsleiðum hvaða kröfur eru gerðar. Yfirleitt þarftu að hafa staðist próf í ákveðnum greinum í framhaldsskóla.

Fjöldatakmarkanir háskólanáms í Svíþjóð

Þegar fleiri sækja um nám en komast að fylgir sætaskiptingin ákveðnum kvótum. Óháð menntun þinni þarftu að sýna fram á að þú standist grunnskilyrðin.

Þú getur sótt um háskólanám eftir ýmsum kvótum ef þú getur bætt við grunnskilyrðin eftir ýmsum leiðum.

 • Einkunnahópur 1 (beinn aðgangur – BI)) er fyrir umsækjendur sem hafa lokið framhaldsskólanámi sem veitir rétt til háskólanáms.
 • Einkunnahópur 2 (aukahópur – BII) er fyrir umsækjendur sem hafa lokið viðbótarnámi hjá Komvux í Svíþjóð til að uppfylla inntökuskilyrði.
 • Háskólaprófið er inntökupróf fyrir þá umsækjendur sem eru óvissir um hvort þeir komist inn í BI. Þú getur tekið háskólaprófið og sótt um með niðurstöðu þess. Prófið er haldið í ýmsum skólum í Svíþjóð tvisvar á ári. Ef niðurstaða prófsins er ekki góð mun menntastofnunin þess í stað líta til meðaleinkunnar stúdentsprófs.

Þú getur kynnt þér skráningu og tímasetningar háskólaprófsins á Studera.nu. Þú getur undirbúið þig með því að skoða fyrri háskólapróf sem finna má á Studera.nu eða á Högskoleprovguiden.

Skráningar- og skólagjöld háskólanáms í Svíþjóð

Norrænir ríkisborgarar þurfa ekki að greiða skráningar- eða skólagjöld til að stunda nám í Svíþjóð. Ef þú býrð innan ESB/EES-svæðisins er opinber menntun ókeypis í Svíþjóð. Einkareknar menntastofnanir geta hins vegar innheimt skólagjöld. 

Þú þarft ekki að greiða skráningar- eða skólagjöld við háskóla ef þú ert

 • sænskur ríkisborgari
 • með fast dvalarleyfi í Svíþjóð
 • með tímabundið dvalarleyfi (á grundvelli annars en náms) í Svíþjóð
 • ríkisborgari ESB-ríkis, EES-ríkis eða Sviss.

Upplýsingar um ríkisfang þitt dvalarleyfi verða sóttar frá Skatteverket og Migrationsverket þegar þú sækir um nám á Antagning.se.

Námsmenn greiða sjálfir fyrir ljósritun skjala og námsefnis, upplýsingaleit og ljósritun á bókasafni, kostnað mögulegra vettvangsferða og annarra ferða og gjöld til nemendafélaga.

Ríkisborgarar annarra landa en ESB-/EES-ríkja og Sviss þurfa að greiða skráningar- og skólagjöld bæði fyrir grunn- og framhaldsnám. Skráningargjaldið er greitt við skráningu í eina eða fleiri námsleiðir.

Háskólar og æðri menntastofnanir ákveða sjálfar upphæð skólagjalda og annast innheimtu þeirra. Upplýsingar um skólagjöld og undanþágur frá reglunum að finna á Antagning.se.

Sænskt nám í háskólaeiningum

Mikilvægt er að vita hve langt námið er. Í Svíþjóð er háskólanám mælt í einingum („högskolepoäng“). Þú færð einingar fyrir hvert námskeið sem þú lýkur í háskóla.  Einingarnar eru skammstafaðar „hp“. Þessar einingar eru notaðar til að ljúka háskólanáminu.

Ef þú ert í fullu námi samsvarar eitt 7,5 eininga námskeið 5 vikna námi, 15 einingar 10 vikna námi, 30 einingar einni önn (20 vikum) og 60 einingar einu námsári (40 vikur).

Hægt er að ljúka allt að 45 einingum á einni önn. Menntastofnanir veita upplýsingar um markmið náms og einingafjölda fyrir hvert námskeið í námskeiðslýsingum.

Bakkalárgráða er 180 eininga nám (3 ár), sem samsvarar 180-ECTS einingum í öðrum löndum ESB. ECTS, sem er skammstöfun á European Credit Transfer System, er evrópskur staðall sem sýnir áætlað vinnuálag í hverju námskeiði og námi.

Einingarnar eru gefnar eftir að nemendur standast próf og auðvelda mat á einingum milli mismunandi námsgreina og viðurkenningu náms milli menntastofnana.

Námsmannasamtök í Svíþjóð

Í Svíþjóð eru til námsmannasamtök sem kallast „studentkår“. Þau eru hagmunasamtök háskólanema sem námsmenn stýra sjálfir. Allir sem stunda nám við sænska háskóla geta skráð sig í námsmannasamtök.

Fáðu nánari upplýsingar hjá menntastofnuninni þinni. Þú getur lesið nánar um málið á vefsíðu námsmannasamtakanna í Svíþjóð, Sveriges förenade studentkårer.

Starfsmenntun í Svíþjóð

Starfsmenntanám er nám á háskólastigi sem er alla jafna 1-2 ára langt í Svíþjóð. Menntastofnanirnar eru ýmist reknar af einkaaðilum eða yfirvöldum. Allt háskólanám er viðurkennt af Myndigheten för Yrkeshögskolan og hefur það reglubundið eftirlit með náminu. 

Námið er rekið í samstarfi við atvinnulífið í starfsgreinum þar sem þörf er á vel menntuðu starfsfólki. Nám að loknum framhaldsskóla veitir undirbúning fyrir störf í byggingariðnaði, upplýsingatækni, landbúnaði, fjölmiðlun, heilbrigðisgeira, tæknigreinum, ferðaþjónustu, veitingagreinum og fjármálageira.

Starfsmenntanám á háskólastigi er í daglegu tali kallað „YH-utbildning“ í Svíþjóð. Í starfsmenntanámi er fræðilegt nám tvinnað saman við verklegt nám. Verklegi hlutinn nefnist LIA („lärande i arbete“) og fer hann fram á vinnustað.

Innihald námsins byggir á þekkingu sem skapast hefur við framleiðslu á vörum og þjónustu. Markmiðið er að nemendur hefji störf eða stofni eigið fyrirtæki strax að loknu námi. Inntak og námsbrautir fagháskólanámsins fara eftir þörfum vinnumarkaðarins.

Viðurkennd prófgráða fyrir starfsmenntun í Svíþjóð

Tvær mismunandi prófgráður eru veittar fyrir starfsmenntun í Svíþjóð: 

 • Fagháskólapróf
 • Fagháskólapróf með starfsréttindum

Starfsmenntun er að minnsta kosti eitt ár og henni lýkur með fagháskólaprófi. Námi sem er tvö ár eða lengra lýkur með fagháskólaprófi með starfsréttindum. Um er að ræða viðurkennda og gæðatryggða prófgráðu í Svíþjóð sem flest fyrirtæki þekkja.

Til að starfsmenntun leiði til prófgráðu þarf námið að vera að minnsta kosti eins árs langt. Ef menntunin leiðir ekki til prófgráðu er þess í stað hægt að fá námsskírteini.

Nánari upplýsingar um hin ýmsu menntasvið og menntastofnanir á vefsíðu Yrkeshögskolan.

Inntaka í sænskt starfsmenntanám

Í Svíþjóð hafa skólarnir umsjón með umsóknarferlinu fyrir starfsmenntanám. Margvíslegur munur er milli menntastofnana (skóla) og þær hafa sjálfar umsjón með inntöku nemenda. 

Hafðu alltaf samband beint við skólann ef þú hefur spurningar um umsóknina og kröfur sem þarf að uppfylla fyrir námið sem þú hefur áhuga á. Athugaðu að umsóknarfrestur er mismunandi eftir námi.

Einnig er mismunandi milli skóla og náms hvað umsóknir þurfa að innihalda. Þú færð nákvæmar upplýsingar um kröfurnar frá skólanum.

Dæmi um gögn sem skólar kunna að biðja um:

 • Einkunnir
 • Umsókn með rökstuðningi fyrir áhuga
 • Skýring á vinnu
 • Sýnidæmi um vinnu
Inntökuskilyrði í sænskt starfsmenntanám

Til að fá inngöngu í starfsmenntanám („yrkeshögskoleutbildning“) í Svíþjóð þarftu fyrst og fremst að uppfylla inntökuskilyrðin („behörighet“). Það þýðir að þú þarft að hafa lokið framhaldsskólaprófi eða búa yfir samsvarandi þekkingu og færni.

Þú uppfyllir inntökuskilyrði og ert nægilega undirbúin/n ef þú uppfyllir einhver eftirfarandi atriði:

 • Þú ert með prófskírteini frá opinberri eða sérhæfðri námsáætlun á framhaldsskólastigi með hið minnsta lægstu einkunn (fullnægjandi).
 • Þú ert með prófskírteini frá framhaldsskólamenntun fyrir fullorðna með hið minnsta lægstu einkunn (fullnægjandi).
 • Þú ert með sænska eða erlenda menntun sem samsvarar kröfum sem getið er í 1. eða 2. lið.
 • Þú býrð í Danmörku, Finnlandi, Íslandi eða Noregi og uppfyllir inntökuskilyrði í sambærilegt nám.
 • Þú hefur starfsreynslu með sænska eða erlenda menntun eða hefur af öðrum ástæðum forsendur til að nýta þér námið.
Sérstakar kröfur um undirbúning

Einnig eru gerðar sérstakar forkröfur fyrir ýmislegt nám. Til dæmis gæti verið gerð krafa um að hafa lokið tilteknum námsgreinum í framhaldsskóla eða búa yfir sambærilegri þekkingu og færni eða hafa viðeigandi starfsreynslu.

Inntökuskilyrði taka ekki eingöngu til formlegs vitnisburðar heldur einnig til raunfærni umsækjanda.

Sænskt einingakerfi fyrir starfsmenntanám

Í Svíþjóð er lengd náms gefin upp í fagháskólaeiningum („YH-poäng“), en fimm einingar samsvara fullu námi í eina viku. 100 einingar samsvara fullu námi í hálft ár, 200 einingar fullu námi í eitt ár og 400 einingar fullu námi í tvö ár. Fagmenntun er oft 2 ára nám og samsvarar 130 ECTS-einingum.

Einingakerfi fagháskólanna er frábrugðið einingakerfi háskólanna. Ekki er sjálfkrafa hægt að yfirfæra einingar frá fagháskola til að stunda nám við háskóla („universitet“). Það er undir hverjum og einum háskóla að ákveða slíkt.

Hér er gefið yfirlit yfir fagháskólaeiningar og samsvarandi háskólaeiningar:

 • Hálfsárs nám gefur 100 fagháskólaeiningar / 30 háskólaeiningar.
 • 1 árs nám gefur 200 fagháskólaeiningar / 60 háskólaeiningar.
 • 2 ára nám gefur 400 fagháskólaeiningar / 120 háskólaeiningar.
 • 3 ára nám gefur 600 fagháskólaeiningar / 180 háskólaeiningar.

Mat á erlendum einkunnum í Svíþjóð

Þú getur ekki þýtt einkunnir þínar þegar þú sækir um nám í Svíþjóð.

Á vefsíðu sænska háskólaráðsins má finna upplýsingar um hvernig einkunnir úr framhaldsskólanámi í öðru norrænu ríki eru reiknaðar yfir í sænskt einkunnakerfi.

Tungumálakröfur fyrir nám á háskólastigi í Svíþjóð

Ef þú hyggst sækja um háskólanám í Svíþjóð þarftu að vera með stúdentspróf. Auk þess þarftu að hafa góða færni í sænsku og ensku. Ef þú ert með stúdentspróf frá öðru norrænu landi gildir það sem staðfesting þess að þú uppfyllir kröfur um ákveðna kunnáttu í sænsku.

Flest nám fer fram á sænsku. Ekki leyfa allar menntastofnanir nemendum að skrifa á öðru skandinavísku tungumáli í verkefnum og prófum. Ef kennsla í tiltekinni grein er á ensku fer prófið einnig fram á ensku.

Námsfólk annars staðar að á Norðurlöndum fær oft leyfi til að taka próf á dönsku, norsku eða sænsku, hvort sem þau eru skrifleg eða munnleg. Hafðu samband við námsráðgjafa á þeirri námsbraut í Svíþjóð sem þú hefur í huga til að fá upplýsingar um að þreyta próf á dönsku eða norsku.

Skiptinám í Svíþjóð

Ef til vill viltu ekki ljúka öllu námi þínu í Svíþjóð, heldur aðeins hluta þess. Það má gera á tvo mismunandi máta.

Í fyrsta lagi er hægt að gera samning milli skólans í Svíþjóð og skólans í heimalandi þínu. Þá þarftu að hafa samband við skólann sem þú stundar nám í eða alþjóðaskrifstofu til að fá upplýsingar um mögulega samninga um skiptinám.

Einnig er hægt að fara í skiptinám þrátt fyrir að skólinn hafi ekki gert formlegan samning við skólann í Svíþjóð. Hafðu samband við skólann í Svíþjóð og kannaðu hvort þú getir fengið inngöngu sem gestanemandi („guest student“) eða „free mover“ í eina önn eða ár. Til að tryggja að þú fáir námskeið metin sem hluta af námi þínu þarf skólinn í heimalandi þínu að samþykkja þau námskeið sem þú tekur í Svíþjóð bæði fyrir fram og eftir á.

Nánari upplýsingar

Þegar fyrirhugað er að stunda nám í Svíþjóð er mikilvægt að hafa þekkingu á námsmannahúsnæði, fjármögnun menntunarinnar, viðurkenningu sænskrar menntunar í öðrum norrænum löndum o.s.frv. Gagnlegar upplýsingar um þetta eru að finna í ýmsu leiðbeiningum Info Norden um nám.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna