Æðri menntun og fagmenntun í Noregi

Students studying
Photographer
Photo by Annie Spratt on Unsplash
Hér er að finna upplýsingar um fagmenntun og æðri menntun við háskóla og tækniháskóla í Noregi og hvernig sótt er um aðgang að náminu.

Norðurlöndin hafa gert með sér samning um sömu eða sambærilegar aðgangskröfur að æðri menntun. Ef þú ert með framhaldsskólapróf úr einu norrænu landi geturðu sótt um aðgang að námi annars staðar á Norðurlöndum til jafns við umsækjendur í viðkomandi landi.

Háskólar og tækniháskólar

Í Noregi er fjöldi háskóla, tækniháskóla og vísindaháskóla sem allir teljast til æðri menntastofnana. Auk þess starfa nokkrar einkareknar æðri menntastofnanir. Háskólar og tækniháskólar bjóða þriggja ára nám til BA/BS-prófs og fimm ára nám til meistaraprófs. Auk þess eru víða í boði eins árs námsbrautir.

Meginmunurinn á tækniháskólum og háskólum er að í tækniháskólunum er kennt í minni hópum, þar eru fleiri hóptímar, meira aðhald með nemendum og meiri verkefnavinna. Í háskólum er meira byggt á sjálfsnámi og kennt er í stærri hópum Þá er nokkur munur á þeim námsgreinum sem í boði eru í mismunandi skólum.

Í Noregi er Bologna-yfirlýsingunni fylgt og þess vegna eru námsgráður sambærilegar þeim sem boðið er upp á í öðrum Evrópulöndum. Auk þess nota allir háskólar og tækniháskólar alþjóðlegt einkunnarkerfi með bókstöfunum frá A til F. Að loknu meistaraprófi er nemanda heimilt að sækja um aðgang að doktorsnámi (Ph.D), sem er þriggja ára nám.

Gráðukerfi innan æðri menntunar í Noregi

Æðri menntun í Noregi er skipt í mismunandi gráður.

BS/BS-gráða og eins árs námsbrautir í Noregi

Fyrsta og lægsta gráðan við háskóla og tækniháskóla í Noregi er BA/BS-gráða sem er þriggja ára námsgráða. Einnig er hægt að stunda tiltekið nám eitt námsár (eins árs námsbraut) Eitt námsár veitir 60 námseiningar og getur verið sjálfstætt nám, hluti af BA/BS-gráðu eða grunnur að inntöku í starfsnám í viðkomandi fagi.

Til þess að að fá inngöngu í BA/BS-nám, verður viðkomandi annað hvort að uppfylla tilekin aðgangsskilyrði eða sýna fram á færni sína með öðrum hætti. Einstaklingar sem hafa þriggja ára framhaldsskólamenntun frá öðru norrænu ríki uppfylla kröfur um aðgang og þurfa ekki að skjalfesta kunnáttu í norsku, hafi þeir hlotið nægilega norsku-, sænsku- eða dönskukennslu í heimalandinu. Ekki þarf heldur að skjalfesta enskukunnáttu. Umsækjendur með erlenda menntun frá öðru landi en norrænu verða að sýna fram á bæði ensku- og norskukunnáttu.

Samordna opptak er þjónustustofnun háskóla og tækniháskóla í Noregi. Þar má nálgast upplýsingar um aðgangsskilyrði og um það hvernig nám frá öðru norrænu ríki er metið.

Meistarapróf í Noregi

Til að sækja um aðgang að meistaranámi þarf að hafa lokið BA/BS námi. Erlendar BA/BS-gráður eru ekki alltaf viðurkenndar með sama hætti og norskar, því gætu nemendur þurft að taka einhver viðbótarfög í norskum háskóla áður en þeir geta sótt um aðgang að norsku meistaranámi, þrátt fyrir að hafa lokið BA/BS prófi í öðru landi. Að baki meistaraprófi er fimm ára nám alls.

Fagnám

Þetta er menntun í tilteknum starfsgreinum. Dæmi um þetta er sálfræði, lögfræði og læknisfræði. Oft er þetta fimm ára nám.

Hvernig er sótt um aðgang að námi

Í Noregi er sótt um aðgang að æðri menntun í gegnum Samordna opptak. Þetta er hægt að gera þótt viðkomandi hafi ekki norska kennitölu. Nokkrar menntastofnanir taka ekki þátt í samstarfinu Samordna opptak. Til þess að sækja um nám hjá þeim þarf að fara gegnum netsíður viðkomandi stofnana.

Umsóknarfrestur hjá Samordna opptak er 15. apríl. Umsóknarfrestur sérstakra umsóknahópa, aðgang að umsókn og yfirlit yfir umsóknarferlið er að finna á samordnaopptak.no. Hafa verður beint samband við þá menntastofnun sem viðkomandi vill nema við til þess að sækja um meistaranám.

Hægt er að breyta námsóskum sínum fram til 1. júlí. 20. júlí eru send út svör um hvort viðkomandi hefur fengið aðgang að því námi sem hann/hún sótti um, eða námi sem sett var til vara og hvar viðkomandi er á biðlista ef það á við. Fara verður inn í vefumsókn hjá Samordna opptak til að sjá niðurstöðu námsumsóknar. Frestur til að staðfesta skráningu er 26. júlí. Ef skráning í nám er ekki staðfest missir viðkomandi námsvist sína. Til þess að staðfesta skráningu verður að fara inn í vefumsóknina hjá Samordna opptak.

Kennsla hefst yfirleitt í kringum 10. ágúst en það er breytilegt milli stofnana.

Skólagjöld á önn

Opinber, æðri menntun er ókeypis í Noregi. Allir sem stunda nám við háskóla eða tækniháskóla þurfa þó að greiða annargjald fyrir hverja önn. Þetta gjald er notað tii að greiða fyrir velferðartilboð fyrir nemendur, svo sem þjálfun, heilbrigðisþjónustu og annað. Gjaldið er greitt til þeirra námsmannasamtaka sem menntastofnanirnar eru tengdar. Sumar stofnanir rukka einnig fyrir ljósritunarkostnað og geta því annargjöldin verið mismunandi milli menntastofnana.

Nemendur sem skráðir eru í nám og hafa greitt annargjöldin fá skírteini sem veita afslátt, meðal annars af ferðakostnaði og ýmsum menningarviðburðum.

Athugið að einkareknir háskólar ákveða sjálfir skólagjöld. Hafið samband við viðeigandi stofnun til að fá yfirlit yfir verð.

Fagskólamenntun

Starfsnám er einnig valkostur um nám. Fagskólamenntun eru stuttar starfsmiðaðar námsbrautir sem tekur frá hálfu ári upp í tvö ár að ljúka. Menntunin veitir hæfni sem nýtist með beinum hætti í atvinnulífinu. Fagskólamenntun byggir á framhaldsskólamenntun eða sambærilegri hæfni og er oft skipulagt þannig að námið má stunda meðfram starfi. Öll sveitarfélög bjóða fagskólamenntun. Einkaskólar bjóða einnig fagskólamenntun.

Fagskólamenntunin (fagskoleutdanning) í Noregi er sambærileg við „erhvervsudddannelse“ í Danmörku og „yrkeshögskola“ í Svíþjóð.

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna