Æðri menntun og fagmenntun í Noregi

Students studying
Ljósmyndari
Photo by Annie Spratt on Unsplash
Hér er að finna upplýsingar um fagmenntun og æðri menntun við háskóla og tækniháskóla í Noregi og hvernig sótt er um aðgang að náminu.

Norðurlöndin hafa gert með sér samning um sömu eða sambærilegar aðgangskröfur að æðri menntun. Ef þú ert með framhaldsskólapróf úr einu norrænu landi geturðu sótt um aðgang að námi annars staðar á Norðurlöndum til jafns við umsækjendur í viðkomandi landi.

Hvers konar æðri menntun er til í Noregi?

Í Noregi eru 27 háskólar og tækniháskólar og 24 fagskólar. Auk þess eru margar einkareknar æðri menntastofnanir.

Háskólar og tækniháskólar í Noregi

Háskólarnir og tækniháskólarnir í Noregi bjóða þriggja ára nám til BA/BS-prófs og fimm ára nám til meistaraprófs. Auk þess er víða boðið upp á fagnám og eins árs nám. Ekki er lengur mikill munur á háskólum (universitet) og tækniháskólum (høgskole). Ein af ástæðum þess er að mikið er um sameiningar skóla.

Fagskólar í Noregi

Annar kostur í stað háskólanáms er starfsmenntun í fagskóla. Þar er um að ræða stutt starfsmiðað nám sem tekur frá hálfu ári upp í tvö ár. Menntunin veitir hæfni sem nýtist með beinum hætti í atvinnulífinu. Fagskólamenntun byggir á framhaldsskólamenntun eða sambærilegri hæfni og er oft skipulagt þannig að námið má stunda meðfram starfi.

Öll sveitarfélög bjóða upp á fagskólamenntun en einnig eru starfandi einkareknir fagskólar.

Fagskólamenntunin (fagskoleutdanning) í Noregi er sambærileg við „erhvervsudddannelse“ í Danmörku og „yrkeshögskola“ í Svíþjóð.

Hvernig er gráðukerfið innan æðri menntunar í Noregi?

Æðri menntun í Noregi er skipt í mismunandi gráður. Í Noregi er Bologna-yfirlýsingunni fylgt og þess vegna eru námsgráður sambærilegar þeim sem boðið er upp á í öðrum Evrópulöndum. Auk þess nota allir háskólar og tækniháskólar alþjóðlegt einkunnarkerfi með bókstöfunum frá A til F. Að loknu meistaraprófi er hægt að sækja um aðgang að doktorsnámi (ph.d), sem er þriggja ára nám.

Þú getur sótt um grunnmenntun sem byggir á framhaldsskólanámi sem veitir almenn námsréttindi. 60 námseiningar samsvarar 1 ári í fullu námi. 

  • Eins árs námsbraut (60 námseiningar)
  • Kandídatsnám (120 námseiningar)
  • Bakkalárnám (180 námseiningar)
  • Meistaranám (300 námseiningar)
  • Fagnám (360 námseiningar)
BS/BS-gráða og eins árs námsbrautir í Noregi

Fyrsta og lægsta gráðan við háskóla og tækniháskóla í Noregi er BA/BS-gráða sem er þriggja ára námsgráða. Einnig er hægt að stunda tiltekið nám eitt námsár (eins árs námsbraut) Eitt námsár veitir 60 námseiningar og getur verið sjálfstætt nám, hluti af BA/BS-gráðu eða grunnur að inntöku í starfsnám í viðkomandi fagi.

Til þess að fá inngöngu í BA/BS-nám verður viðkomandi annað hvort að hafa fengið almenn námsréttindi úr framhaldsskóla eða sýna fram á færni sína með öðrum hætti. Einstaklingar sem hafa þriggja ára framhaldsskólamenntun frá öðru norrænu ríki uppfylla kröfur um aðgang og þurfa ekki að skjalfesta kunnáttu í norsku, hafi þeir hlotið nægilega norsku-, sænsku- eða dönskukennslu í heimalandinu. Ekki þarf heldur að skjalfesta enskukunnáttu. Umsækjendur með erlenda menntun frá öðru landi en norrænu verða að sýna fram á bæði ensku- og norskukunnáttu.

Samordna opptak er þjónusta sem stjórnar og samræmir inntöku nýrra nemenda til norskra háskóla, tækniháskóla og fagskóla. Á Samordna opptak má nálgast upplýsingar um inntökuskilyrði og hvernig nám frá öðru norrænu ríki er metið í Noregi.

Fagnám í Noregi

Fagnám er menntun í tilteknum starfsgreinum. Dæmi um þetta er sálfræði, lögfræði og læknisfræði. Oft er þetta fimm ára nám.

Á Samordna opptak má nálgast upplýsingar um inntökuskilyrði og hvernig nám frá öðru norrænu ríki er metið í Noregi.

Meistaranám í Noregi

Til að sækja um aðgang að meistaranámi þarf að hafa lokið BA/BS námi. Erlendar BA/BS-gráður eru ekki alltaf viðurkenndar með sama hætti og norskar, því gætu nemendur þurft að taka einhver viðbótarfög í norskum háskóla áður en þeir geta sótt um aðgang að norsku meistaranámi, þrátt fyrir að hafa lokið BA/BS prófi í öðru landi. Að baki meistaraprófi er fimm ára nám alls.

Að öllu jöfnu er sótt um meistaranám hjá þeirri menntastofnun sem þú vilt stunda nám við.

Doktorsnám í Noregi

Að loknu meistaranámi er hægt að sækja um inngöngu í nám til doktorsgráðu. Það er æðsta gráðan sem hægt er að fá í Noregi og þú færð laun á meðan þú tekur hana. Alla jafna felur doktorsgráða í sér að þú rannsakar tiltekið efni og skrifar greinar um niðurstöður þínar. Að meginreglunni til tekur þrjú til fjögur ár að ljúka doktorsnámi.

Hvernig er sótt um nám í Noregi?

Í Noregi er sótt um aðgang að æðri menntun í gegnum Samordna opptak. Þetta er hægt að gera þótt viðkomandi hafi ekki norska kennitölu. Sumar menntastofnanir taka ekki þátt í samstarfinu Samordna opptak. Til þess að sækja um nám hjá þeim þarf að fara beint á vefsíður þeirra.

Umsóknarfrestur hjá Samordna opptak er 15. apríl. Umsóknarfrestur sérstakra umsóknahópa, aðgang að umsókn og yfirlit yfir umsóknarferlið er að finna á samordnaopptak.no. Hægt er að breyta námsóskum sínum fram til 1. júlí. 20. júlí eru send út svör um hvort viðkomandi hefur fengið aðgang að því námi sem hann/hún sótti um, eða námi sem sett var til vara og hvar viðkomandi er á biðlista ef það á við. Fara verður inn í vefumsókn hjá Samordna opptak til að sjá niðurstöðu námsumsóknar. Frestur til að staðfesta skráningu er 24. júlí. Ef skráning í nám er ekki staðfest missir viðkomandi námsvist sína. Til þess að staðfesta skráningu verður að fara inn í vefumsóknina hjá Samordna opptak.

Kennsla hefst yfirleitt í kringum 10. ágúst en það er breytilegt milli skóla.

Hafa verður beint samband við þá menntastofnun sem viðkomandi vill nema við til þess að sækja um meistaranám.

Inntaka í æðri menntun í Noregi

Mismunandi inntökuskilyrði og reglur gilda um útreikning eininga fyrir fagskóla og háskóla.

Til að stunda nám við fagskóla þarf að uppfylla inntökuskilyrðin. Flestir fagskólar gera kröfu um fagskírteini, sveinspróf eða þriggja ára starfstengt nám sem tengist náminu sem sótt er um.Aðrar kröfur kunna einnig að gilda. Einnig er hægt að sækja um með raunfærnimati.

Til þess að stunda frekara nám við háskóla eða tækniháskóla þarftu að hafa almenn námsréttindi frá framhaldsskóla. Auk þess eru sérstök inntökuskilyrði fyrir sumt nám. Þegar þú hefur sótt um inngöngu verður þú sjálfkrafa metin(n) samkvæmt venjulegum kvóta eða hugsanlega kvóta fyrir fyrstu námsgráðu.

Aðrar gagnlegar upplýsingar um æðri menntun í Noregi

Hér höfum við tekið saman gagnlegar upplýsingar um umsóknir um æðri menntun í Noregi

Tungumál í menntastofnunum

Kennsla fer fram á norsku nema annað sé tekið fram. Námsefni getur einnig verið á ensku og í sumum tilfellum á öðrum skandinavíumálum.

Námsstyrkur í Noregi

Að öllu jöfnu getur þú sótt um námslán og námsstyrki frá landinu sem þú ert ríkisborgari í. Þú skalt því hafa samband við stofnanir í þínu landi til að athuga hvort þær styðji námið sem þú hyggst stunda í Noregi.

Efnahagur námsmanna

Æðri menntun er ókeypis í Noregi en greiða þarf námsannargjald og kaupa námsefni.Námsannargjaldið er notað til að greiða fyrir velferðartilboð fyrir nemendur, svo sem þjálfun, heilbrigðisþjónustu og annað. Gjaldið er greitt til þeirra námsmannasamtaka sem menntastofnanirnar eru tengdar. Sumar stofnanir rukka einnig fyrir ljósritunarkostnað og geta því námsannargjöldin verið mismunandi milli menntastofnana.

Nemendur sem skráðir eru í nám og hafa greitt námsannargjöldin fá námsmannaskírteini sem veita afslátt, meðal annars af ferðakostnaði og ýmsum menningarviðburðum.

Athugaðu að einkareknir háskólar ákveða sjálfir skólagjöld. Hafðu samband við viðeigandi menntastofnun til að fá yfirlit yfir verð.

Hver getur veitt þér svar við spurningum?

Hafðu samband við Samordna opptak ef spurningar vakna um æðri menntun og fagskóla í Noregi.

Hafa samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna