Meðlag og framfærslustyrkur í Finnlandi

Elatusapu ja -tuki Suomessa
Hér er sagt frá meðlagi og framfærslustyrk í Finnlandi. Í fyrri hluta textans er sagt frá meðlagi og í lok textans frá framfærslustyrk sem greiddur er í sérstökum tilvikum, þegar annað foreldri barns býr í öðru norrænu landi eða flytur þangað.

Meðlag er peningaupphæð sem annað foreldri barns greiðir og tekur þannig þátt í framfærslu barns síns. Þegar foreldrar búa í mismunandi löndum er gengið út frá löggjöf þess lands þar sem barnið býr. Ef barn býr í Finnlandi en fær ekki framfærslu frá foreldrum sínum getur finnska almannatryggingastofnunin (Kansaneläkelaitos eða Kela) greitt framfærslustyrk.

Börn eiga rétt á framfærslu frá foreldrum sínum til átján ára aldurs. Foreldrar bera áfram kostnað af menntun barna sinna eftir átján ára aldur, innan skynsamlegra marka. 

Meðlag

Meðlag er peningaupphæð sem foreldri, sem ekki býr með barni sínu, greiðir með reglubundnu millibili og tekur þannig þátt í kostnaði við framfærslu barnsins. Hægt er að skylda foreldri til að greiða meðlag með barni ef viðkomandi tekur ekki þátt í framfærslu barnsins með öðrum hætti, ef barnið hefur ekki fasta búsetu á heimili viðkomandi eða ef barnið býr til skiptis þar og á heimili annars foreldris eða forsjáraðila.

Meðlag er reiknað út í samræmi við einstaklingsbundna framfærsluþörf barnsins. Upphæð meðlags og greiðsluleið er ýmist staðfest með samkomulagi foreldra með aðstoð barnaverndarfulltrúa, eða fyrir dómstólum. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði finnsku heilbrigðis- og velferðarstofnunarinnar.

Ef annað foreldri býr í öðru norrænu landi

Meðlagsskyldu foreldri ber skylda til að greiða meðlagið óháð búsetulandi barnsins. Það þýðir að framfærsluskyldunni lýkur ekki þó að barnið og hið framfærsluskylda foreldri búi í mismunandi löndum.

Meðlagsskuldir í Finnlandi eru einnig innheimtar frá framfærsluskyldum íbúum í öðrum löndum. Finnska dómsmálaráðuneytið er miðlægt yfirvald í málefnum meðlagsgreiðslna milli landa í Finnlandi.

Ef framfærsluskylt foreldri greiðir ekki meðlag getur það foreldri sem býr með barninu sótt um framfærslustyrk samkvæmt reglum heimalands síns.

Framfærslustyrkur

Framfærslustyrk er ætlað að tryggja barni örugga framfærslu í þeim tilvikum sem það er ekki á framfæri beggja foreldra sinna. Barn á rétt á framfærslustyrk ef framfærsluskyldur aðili hefur ekki greitt staðfest meðlag. Réttur til framfærslustyrks myndast einnig ef framfærsluskylda hefur ekki verið staðfest vegna skorts á greiðslugetu eða þegar upphæð meðlags hefur verið lækkuð vegna skertrar greiðslugetu hins framfærsluskylda aðila, svo að hún verður lægri en upphæð framfærslustyrksins. Finnska almannatryggingastofnunin sér um framkvæmd framfærslustyrks.

Framfærslustyrkur frá finnsku almannatryggingastofnuninni er aðeins greiddur ef barnið hefur fasta búsetu í Finnlandi.

Hvernig er sótt um framfærslustyrk?

Foreldri barns eða annar umsjáraðili getur sótt um framfærslustyrk. Ef barnið hefur náð 15 ára aldri og býr á eigin vegum getur það sótt um styrkinn sjálft.

Hvað er hægt að fá háan styrk?

Ýmist er hægt að fá fullan framfærslustyrk eða hluta hans.

Fullur framfærslustyrkur er greiddur ef staðfest hefur verið að greiða skuli að minnsta kosti fullt meðlag með barninu, en hinn framfærsluskyldi aðili greiðir ekki meðlag.

Ef ákveðið hefur verið að hinn framfærsluskyldi greiði skert barnsmeðlag vegna fjárhagsstöðu sinnar, þá greiðir hið opinbera þá upphæð sem munar á greiddu meðlagi og fullum framfærslustyrk.

Ef framfærslustyrkur er greiddur með þeim rökstuðningi að meðlag hafi ekki verið greitt og ef staðfest meðlag er lægra en fullur framfærslustyrkur af öðrum ástæðum en skertri greiðslugetu hins framfærsluskylda, þá er aðeins greidd sú upphæð sem nemur staðfestu meðlagi.

Ef faðerni barns sem fætt er utan hjónabands hefur ekki verið staðfest og barnið á því ekki tvo framfærsluskylda foreldra, ef ættleiðingarforeldri hefur ættleitt barn upp á eigin spýtur eða ef ekki var unnt að staðfesta meðlagsupphæð um leið og móðerni og faðerni barnsins, er framfærslustyrkur greiddur að fullu.

Hve lengi er framfærslustyrkur greiddur?

Framfærslustyrkur er greiddur í lengsta lagi fram að átján ára afmæli barnsins. Greiðslutímabili getur þó lokið fyrir þann tíma ef framfærsluskyldu lýkur eða ef skilyrði fyrir styrknum teljast ekki lengur uppfyllt að öðru leyti.

Ef annað foreldra býr í öðru norrænu landi eða flytur þangað

Barn á rétt á framfærslu frá báðum foreldrum sínum, sem þýðir að framfærsluskylda fellur ekki úr gildi þó að hinn framfærsluskyldi flytji til annars norræns lands.

Ef framfærsluskylt foreldri í öðru landi greiðir ekki staðfest meðlag getur finnska almannatryggingastofnunin (Kela) greitt framfærslustyrk og rukkað foreldrið sem býr erlendis.

Hafi framfærslustyrkur verið samþykktur hefur flutningur framfærsluskylds foreldris til annars noræns lands ekki áhrif á greiðslu framfærslustyrks í Finnlandi, að því gefnu að barnið hafi þar enn fasta búsetu.

Ef barnið flytur til annars norræns lands

Til að fá greiddan framfærslustyrk í Finnlandi þarf barnið sem um ræðir að hafa fasta búsetu í landinu.

Hægt er að greiða framfærslustyrk tímabundið vegna barns sem dvelur erlendis, í lengsta lagi í sex mánuði, ef litið er svo á að barnið hafi fasta búsetu í Finnlandi þrátt fyrir dvölina erlendis. Hægt er að gera undantekningu frá sex mánaða reglunni ef dvöl barns í öðru norrænu landi er samfelld og tímabundin. Hægt er að greiða framfærslustyrkinn ef barnið hefur enn fasta búsetu í Finnlandi.

Flytji barnið varanlega til annars norræns lands missir það rétt á finnskum framfærslustyrk við flutninginn frá Finnlandi.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna