Staða finnsku og íslensku styrkt í Norðurlandaráði

31.10.18 | Fréttir
Stortinget Nordiska rådets session 2018
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Norðurlandaráð staðfesti í dag að í ráðinu séu fimm opinber tungumál: danska, finnska, íslenska, norska og sænska. Ákvörðunin er stefnumarkandi og er byggð á margra ára umræðum sem oft á tíðum hafa verið nokkuð krefjandi.

Í röksemdum fyrir ákvörðuninni leggur Norðurlandaráð áherslu á lýðræði og jöfnuð og þá sérstaklega að allir þingmenn skuli eiga þess kost að tjá á sínu eigin tungumáli, bæði í ræðu og riti. Í gildandi starfsreglum frá árinu 2012 eru öll tungumálin skilgreind sem jafngild en finnsku og íslensku þingmönnunum hefur ekki þótt staðan vera réttlát. Ákvörðun dagsins um að veita öllum tungumálunum opinbera stöðu gerir að verkum að endurskrifa þarf starfsreglurnar.

Maarit Feldt-Ranta frá Finnlandi er ánægð.

„Ég er ánægð með að við skulum hafa komist áfram með þetta mál. Það er mikilvægt jafnréttismál að allar þjóðtungurnar séu opinber tungumál innan ráðsins.“ 

Tekur gildi árið 2020

Túlkun á og úr finnsku og íslensku er þegar skipulögð eftir þörfum á öllum fundum ráðsins. Öll mikilvæg gögn eru þýdd á finnsku og íslensku. Þörfin fyrir túlkun hefur aukist verulega undanfarin ár og hefur haft í för með sér stigvaxandi kostnað. Í ákvörðun ráðsins kemur fram að greina verður betur kostnaðarlegar afleiðingar breytinganna sem gerir að verkum að þær geta ekki tekið gildi fyrr en í ársbyrjun 2020. Meðal þess sem kannað verður í undirbúningnum er hvort unnt væri að taka upp fjartúlkun í framtíðinni og ná þannig niður kostnaði.

Vinnutungumálin á skrifstofu Norðurlandaráðs verða áfram danska, norska og sænska en ráðið staðfestir að alltaf verði að vera fyrir hendi starfsfólk á skrifstofunni sem býr einnig yfir staðgóðri þekkingu á íslensku og finnsku.
Málið komst á dagskrá Norðurlandaráðs eftir að finnsku og íslensku landsdeildirnar lögðu fram tillögu haustið 2016 þess efnis að finnska og íslenska ættu að vera meðal vinnutungumála. Málið hefur verið rætt í forsætisnefndinni og var einnig til meðferðar á þinginu í Helsinki árið 2017. Þar var ákveðið að málið skyldi undirbúið frekar og stefnt að ákvörðun á þinginu Ósló.

Michael Tetzschner, forseti Norðurlandaráðs, er ánægður með tungumálasamkomulagið. Hann hefur þó áhyggjur af kostnaðarhliðinni. 

„Við verðum að gæta okkar á því að ekki fari svo að kostnaðurinn aukist svo mikið að við sjáum okkur knúin til þess að fara yfir í ensku,“ segir hann.