Norrænt samstarf á árinu sem leið

29.12.20 | Fréttir
Nordiske flag foran Riksdagen i Stockholm
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org
Árið 2020 bauð upp á óvæntar áskoranir í norrænu samstarfi vegna covid-19-faraldursins. Engu að síður hafa verið fjölmargir viðburðir og mikil þróun innan vébanda Norðurlandasamstarfsins. Hér er yfirlit yfir sumt af því markverðasta sem átti sér stað í norrænu samstarfi á árinu sem leið.

Janúar

 • Við áramót urðu mannaskipti í sætum forseta og formanns í Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni. Ísland tók við forsæti Norðurlandaráðs og Danmörk, Færeyjar og Grænland tóku við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni.

 

 • Fyrstu stefnumótanir ársins voru leiddar til lykta, meðal annars samþykkti stjórnsýsluhindranaráðið forgangsmálefni sín fyrir árið, norræna velferðarnefndin setti fram stefnu sína um Norðurlönd þar sem sjálfsvíg þekkjast ekki og skoska þingið lýsti yfir vilja til aukins samstarfs við Norðurlönd.

Febrúar

 • Samstarfsráðherrar Norðurlanda komu sér saman um markmið ársins þar sem græn gildi voru í öndvegi. Á lista yfir sérstök markmið er meðal annars vinna og rannsóknir til þess að stuðla að kolefnishlutleysi, hringrásar- og lífhagkerfi og að tryggja líffræðilega fjölbreytni.

 

 • Nordic Safe Cities, verkefni sem heyrði undir Norrænu ráðherranefndina og hafði að markmiði að tryggja öryggi í norrænum borgum, þróaðist áfram og varð að sjálfseignarstofnun. 

Mars

 • Miklar áskoranir urðu til í norrænu samstarfi vegna covid-19-heimsfaraldursins. Þær birtust meðal annars í því að þemaþingi Norðurlandaráðs í Helsinki var aflýst og Húsi Norðurlanda í Kaupmannahöfn lokað tímabundið.

 

 • Pólitíska samstarfið var unnið stafrænt. Til dæmis miðluðu bæði norrænu samstarfsráðherrarnir og norrænu félagsmála- og heilbrigðisráðherrarnir reynslu sín í milli af baráttunni gegn covid-19. 

 

 • Norðurlandaráð sendi norrænu forsætisráðherrunum bréf með hvatningu um að norrænt samstarf yrði aukið á krepputímum. Sömuleiðis tók Norðurlandaráð afstöðu í alþjóðasamfélaginu með því að styðja lýðræðisöflin í Póllandi.

Apríl

 • Norrænu loftslags- og umhverfismálaráðherrarnir lýstu því yfir að grænu umskiptin yrðu í miklum forgangi í uppbyggingarstarfinu í kjölfar covid-19-heimsfaraldursins.

 

 • Norðurlandaráð og skoska og íslenska þingið skiptust á reynslu um baráttuna gegn covid-19.

 

 • Stjórnsýsluhindranaráðið samþykkti að safna skyldi og miðla norrænni reynslu að heimsfaraldrinum loknum og Norræna ráðherranefndin breytti fjárhagsáætlun sinni fyrir árin 2020 og 2021 til þess að auka vægi þekkingarmiðlunar í kjölfar covid-19.

 

 • Norræna ráðherranefndin hleypti NordicBaltic.tech af stokkunum en það er vettvangur Norðurlanda og Eystrasaltslanda til þess að miðla nýskapandi tæknilausnum sem geta þjónað sem andsvar við nýjar aðstæður.

Maí

 • Norrænu jafnréttismálaráðherrarnir lögðu áherslu á nauðsyn þess að tryggja að baráttan gegn covid-19 bitnaði ekki á jafnréttismálum, hvorki til skemmri né lengri tíma litið. Á sama hátt lagði norræna velferðarnefndin áherslu á að miðlun reynslu skipti höfuðmáli til þess að koma í veg fyrir mismunun í kreppum framtíðarinnar.

 

 • Norrænu samgöngumálaráðherrarnir urðu sammála um að styrkja samgöngugeirann með áherslu á grænar og sjálfbærar lausnir. Þá voru norrænu orkumálaráðherrarnir sammála um að efnahagsleg uppbygging yrði að vera græn. Auk þess samþykktu þeir yfirlýsingu um þróun norræna raforkumarkaðarins. 

Júní

 • Stjórnsýsluhindranaráðið sendi norrænu forsætisráðherrunum bréf þar sem hvatt var til þess að unnin yrði norræn stefna fyrir hættuástand.

 

 • Norræna ráðherranefndin kom á fót stýrihópi sem ætlað er að vinna að samhæfingu norrænnar byggingarstarfsemi og tryggja að dregið verði úr losun CO2.

 

 • Þekkingar- og menningarnefnd Norðurlandaráðs kallaði eftir norrænni enduruppbyggingu á sviði menningar, menntunar og rannsókna til að bregðast við afleiðingum heimsfaraldursins á þessum sviðum.

Júlí

 • Covid-19-heimsfaraldurinn kom í veg fyrir að hinar hefðbundnu norrænu lýðræðishátíðir væru haldnar en með margs konar stafrænum viðburðum var lífinu haldið í lýðræðislegum umræðum. Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin héldu meðal annars stafrænan þjóðfund um tímana í kjölfar covid-19, falsfréttir og ungt fólk og lýðræði í samstarfi við danska miðilinn Altinget.

 

 • Stjórnsýsluhindranaráðið kortlagði áskoranir í tengslum við ferðir norræns almennings yfir landamæri vegna heimsfaraldursins. Kortlagningin sýndi fram á að heimsfaraldurinn hefur skapað óvissu og gremju hjá mörgum þeirra sem er búsett á landamærasvæðum. 

Ágúst

 • Lokið var við drög að aðgerðaáætlun til þess að ná framtíðarsýn norræns samstarfs fyrir árið 2030. 

 

 • Norræna ráðherranefndin kynnti umræðuröð sem hafði þann tilgang að beina sjónum að réttindum og tækifærum LGBTI-fólks á Norðurlöndum. Í kjölfar þess voru haldnir umræðufundir í hverju og einu hinna átta norrænu landa frá ágúst og fram í nóvember.

September

 • Norðurlandaráð hitti Svetlönu Tikhanovskaja leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Belarus.

 

 • Norrænu húsnæðis- og byggingamálaráðherrarnir komu sér saman um nokkrar aðgerðir sem ætlað er að styrkja norrænt samstarf um hringrás í byggingariðnaði, samræmingu byggingareglna og aukið samstarf innan ESB.

 

 • Samstarfsráðherrar Norðurlanda samþykktu fjögurra ára samstarfsáætlun um norrænt samstarf þar sem tekið er mið af framtíðarsýninni fyrir 2030. 

 

 • Britt Bohlin framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs tilkynnti um starfslok sín í ársbyrjun 2021 af persónulegum ástæðum.

Október

 • Þing Norðurlandaráðs var ekki haldið með hefðbundnum hætti heldur var í þingvikunni boðið upp á stafræna fundi og umræður og stafrænni verðlaunahátíð Norðurlandaráðs. Finnar urðu hlutskarpastir en bæði bókmenntaverðlaunin og tónlistarverðlaunin féllu Finnum í skaut. Hápunktur vikunnar var umræðufundur norrænu forsætisráðherranna, fulltrúa Norðurlandaráðs og aðalritara Sameinuðu þjóðanna, António Guterres.

 

 • Bertel Haarder var kjörinn forseti Norðurlandaráðs fyrir árið 2021 þegar Danmörk tekur við formennsku af Íslandi.

 

 • Finnland kynnti formennskuáætlun sína fyrir Norrænu ráðherranefndina 2021.

 

 • Svetlana Tikhanovskaja leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Belarus hitti Norðurlandaráð að nýju og ráðið lýsti yfir stuðningi við baráttu almennings í Belarus fyrir lýðræði og frelsi.

Nóvember

 • Á umræðufundum Choosing Green komu saman meira en fimmtíu fulltrúar ungmennahreyfinga, iðnaðarins, félagslegra stofnana, félagasamtaka, auk vísindafólks, aðgerðasinna í loftslagsmálum og stjórnmálamanna til þess að ræða græn umskipti í skugga kórónuveirunnar. Viðburðurinn var liður í undirbúningi Norrænu ráðherranefndarinnar undir þátttöku í COP26 í Glasgow 2021.

 

 • Norrænu jafnréttismálaráðherrarnir styrktu stefnumótunina fyrir bætt lífsgæði LGBTI-fólks á Norðurlöndum, Norðurlöndin og Eistland efndu til samstarfs um sameiginlegt rannsóknarverkefni um covid-19 og Flemming Møller Mortensen frá danska jafnaðarmannaflokknum varð nýr samstarfsráðherra Norðurlanda í Danmörku.

Desember

 • Stjórnsýsluhindranaráðið hvatti enn einu sinni norrænu fjármála- og skattamálaráðherrana til þess að veita undantekningu frá gildandi reglum þannig að vinnuferðalangar þurfi ekki að greiða skatt í tveimur löndum.

 

 • Norrænu menntamálaráðherrarnir beindu sjónum að líðan ungs fólks á Norðurlöndum, meðal annars með því að skipuleggja kortlagningu á aðgerðum sem unnið geta gegn vanlíðan ungs fólks.

 

 • Hin færeyska Kristina Háfoss var valinn nýr framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs og tekur við starfinu í febrúar 2021. Kristina Háfoss er fyrsti framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs sem kemur frá Færeyjum